Nasismi og kommúnismi: Hliðstæður og ólíkt mat

Harðstjórarnir Hitler og Stalín. Gömul skopmynd.

 Á Vesturlöndum hafa menn tilhneigingu til að horfa með öðrum hætti á kommúnismann en nasismann þótt færa megi rök fyrir því að leggja þessar helstefnur 20. aldar að jöfnu. Sagnfræðilegar rannsóknir sýna að fórnarlömb harðstjórnar undir þeirra merkjum skipta tugum milljóna. Hér er fjallað um sögulegar og pólitískar ástæður að baki þessa tvískinnungs.

Fyrir fáeinum árum greindu fjölmiðlar frá því að vatnslitamynd eftir nasistaforingjann Adolf Hitler, gerð árið 1912, yrði senn boðin til sölu hjá uppboðshúsi einu í Los Angeles í Bandaríkjunum. Ungur fékkst Hitler við málaralist og eru sum verka hans enn varðveitt. Ekki þykja þau merkileg frá fagurfræðilegu sjónarmiði, dauf og viðvaningsleg, en þau hafa talsvert peningagildi og eru eftirsótt meðal sumra safnara. Hitler er einhver illræmdasti maður í sögu síðari tíma og því kemur ekki á óvart að fréttin vakti mikið uppnám. Sögðu gagnrýnendur að það að höndla með verk hans væri óvirðing við minningu tugmilljóna fórnarlamba nasismans. Verið væri að setja Hitler á stall með listamönnum þar sem hann ætti ekki heima. Sá uppboðshúsið sig tilneytt til að hætta við sölu málverksins. En líklegt er að það hafi síðan verið selt að tjaldabaki. Örfá ár eru síðan svipað írafár varð vegna uppboðs á nokkrum vatnslitamyndum og skissum eftir Hitler í Lundúnum. Meðal þeirra sem þá létu frá sér heyra var kona sem lifað hafði af fangabúðavist í Þýskalandi Hitlers í seinni heimsstyrjöldinni. Hún sagði að heimurinn ætti að minnast Hitlers „sem skrímslis en ekki sem listamanns.“ Ef verk eftir hann kæmi inn fyrir hennar dyr myndi hún sótthreinsa heimilið og kveikja í verkinu úti í garði. Líklega finnst flestum siðferðilega rangt að hampa listaverkum sem einræðisherrar og fjöldamorðingjar hafa skapað. Hitler er ekki eini harðstjórinn sem kemur í hugann í því sambandi. Maó formaður, leiðtogi kínverskra kommúnista um langt árabil, sem Heimsmetabók Guinness kallar „mesta fjöldamorðingja mannkynssögunnar,“ er til dæmis sagður hafa verið þokkalegt ljóðskáld. En útgáfa og kynning á ljóðum hans vekur ekki sams konar geðshræringar og uppboð á málverkum Hitlers. Það virðist þykja virðuleg iðja að þýða verk eftir Maó á vestræn mál, gefa út og lesa upp opinberlega. Sú spurning vaknar af hverju önnur viðhorf eru ríkjandi gagnvart því að halda ljóðum Maós á lofti en málverkum Hitlers. Ekki voru saklaus fórnarlömb ljóðskáldsins og kommúnistans Maós færri en listmálarans og nasistans Hitlers.

Milljónir saklaustra létu lífið í þrælkunarbúðum sovéskra kommúnista.

MILLJÓNIR FÓRNARLAMBA

Nú er talið að um 85 milljónir manna hafi látið lífið beint og óbeint af völdum harðstjórnar í ríkjum kommúnista frá því að þeir komust fyrst til valda í Rússlandi árið 1917. Í vönduðustu úttekt fræðimanna á þessari sögu, Svartbók kommúnismans sem út kom í Frakklandi 1997 (og í íslenskri þýðingu 2009), segir að stjórnir kommúnista beri ábyrgð á dauða 55 til 72 milljóna manna í Kína, 20 milljóna í Sovétríkjunum, 2,3 milljóna í Kambódíu, 2 milljóna í Norður-Kóreu, 1,7 milljóna í Afríku, 1 milljónar í Víetnam, 1 milljónar í Austur-Evrópuríkjum og um 150.000 manna í Suður-Ameríku. Nasisminn tók einnig sinn toll. Fórnarlömb hans í Þýskalandi og löndum sem Þjóðverjar hernámu í seinni heimsstyrjöldinni eru yfirleitt talin allt að 20 milljónir. Í ljósi þessara talna mætti ætla að almenningsálitið og áhrifamiklir álitsgjafar á Vesturlöndum legðu almennt að jöfnu kommúnismann og nasismann og þá menn sem ábyrgð báru á ógnarverkum þeirra. Svo er þó ekki. Dæmið af ólíkum viðhorfum til listsköpunar Hitlers og Maós er kannski ekki stórvægilegt, en það er um margt lýsandi fyrir ákveðinn tvískinnung sem ríkir í viðhorfum okkar á Vesturlöndum til fortíðarinnar í þessu efni. Menn hafa tilhneigingu til að horfa með öðrum hætti á nasismann en kommúnismann. Hvað liggur þar að baki?

Gyðingar í útrýmingarbúðum þýskra nasista.

SÖGULEGAR ÁSTÆÐUR

Sögulegar ástæður vega þungt í þessu sambandi. Valdaskeið nasista í Þýskalandi var innan við tveir áratugir. Hin ríkjandi mynd af nasismanum er af hátindi illsku hans. Hún mótaðist í stríðslok þegar minningar um nærveru nasismans í mörgum Evrópulöndum, nærveru sem fylgdi kúgun og ánauð, mikið mannfall og eyðilegging borga og bæja, voru ferskar og sterkar. Þá komu einnig í ljós hinir skelfilegu glæpir sem nasistar höfðu drýgt, svo sem útrýmingarbúðir með gasklefum og fjöldaaftökur á víðavangi. Kommúnisminn hrundi ekki í okkar heimshluta fyrr en í lok níunda áratugarins og byrjun hins tíunda, næstum 75 árum eftir byltinguna í Rússlandi. En hryllilegasta skeiði kommúnismans þar eystra, tíma hinna skipulögðu hungursneyða og Gúlagfangabúðanna, var lokið löngu fyrir hrunið. Umbótastefna, að vísu mjög ófullkomin, hafði tekið við og var við lýði um nokkurt árabil. Kommúnisminn náði því að koma sér upp mun skárri ásýnd en nasisminn í Þýskalandi hafði þegar hann lagði upp laupana. Allt frá stríðslokum hafa glæpir nasismans verið innprentaðar í huga fólks á Vesturlöndum með bókum og kvikmyndum, söfnum og áhrifamiklum sýningum um helförina, og stöðugum fréttaflutningi af leitinni af forkólfum nasista og fangabúðastjórum þeirra um allan heim. Víða í Evrópu er með lögum beinlínis bannað að mæla honum bót. Nasisminn hefur þannig orðið táknmynd fyrir illskuna sjálfa í öllu sínu veldi. Um kommúnismann gegnir öðru máli – að hluta til vegna þess hvernig fall hans bar að. Það voru engin Nürnberg-réttarhöld haldin yfir leiðtogum Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra eftir að kommúnisminn hrundi, enginn formlegur dómur var kveðinn upp yfir þeim eins og leiðtogum Þýskalands í stríðslok. Hvergi eru nein viðurlög við því að bera í bætifláka fyrir ógnarstjórn Leníns og Stalíns eða draga sögulega vitneskju um hana í efa. Enginn fangavörður Gúlag-búðanna sovésku hefur verið settur á sakamannabekk og fáir kommúnistaforingjar verið kallaðir til ábyrgðar fyrir dómstólum. Eru það helst leiðtogar Austur-Þýskalands sem hlotið hafa slík örlög. Þá var Ceausescu, einvaldur Rúmeníu, hengdur af æstum múg þegar veldi kommúnista í landinu féll árið 1989 með miklu braki og brestum. Eftir að lýðræði var komið á fót í ríkjum Austur-Evrópu hefur þótt sjálfsagt að fyrrum kommúnistaforingjar tækju þátt í stjórnmálum og settust á þing; eiga þó margir þeirra að baki skuggalegan feril sem spilltir stjórnendur á vegum hinna gömlu valdaflokka. Menn sem uppvísir hafa orðið að tengslum við nasismann fyrr á tíð hafa aftur á móti engra griða getað vænst. Kurt Waldheim, forseta Austurríkis, var ekki vært í embætti á tíunda áratug síðustu aldar eftir að upp komst að hann hafði verið foringi í her nasista. Þýski rithöfundurinn Günter Grass glataði stöðu sinni sem áhrifamikil rödd á vinstri væng stjórnmálanna efir að hann upplýsti í blaðaviðtali fyrir nokkrum árum að hann hefði verið félagi í SS-sveitum nasista síðustu mánuði heimsstyrjaldarinnar síðari.

MANNÚÐ OG MANNHATUR

Annað vegur ekki síður þungt en þessar sögulegu skýringar í samanburði nasismans og kommúnismans nú á dögum. Það er útbreidd skoðun – kannski jafnvel ríkjandi skoðun - að kommúnisminn hafi verið – og sé jafnvel enn - í kjarna sínum fögur hugsjón sem hafi haft velferð almennings og bætt kjör þess að markmiði. Kommúnisminn hafi í rótinni verið mannúðarstefna. Slysaleg framkvæmd hans er þá ýmist talin hörmuleg mistök til að læra af eða að hugsjónin sé óraunhæf vegna ófullkomleika mannanna. Gagnstætt þessu viðhorfi til kommúnismans er það að heita má almenn skoðun að tóm núll sé að finna í tekjudálki höfuðbókar nasismans í Þýskalandi. Hann hafi frá upphafi staðið fyrir ógeðfelld viðhorf, öfgafulla þjóðernishyggju, kynþáttafordóma og óbilgjarna drottnunarstefnu gagnvart nágrannaþjóðum Þjóðverja í Evrópu. Mannhatur í einu orði sagt. Nasistum hafi tekist að afla sér fylgis innanlands vegna þeirra miklu erfiðleika og niðurlægingar sem landsmenn gengu í gegnum eftir ósigurinn í fyrri heimsstyrjöldinni. Uppbyggingin í Þýskalandi á fjórða áratugnum og bætt lífskjör almennings á þeim árum eru ekki talin vega þungt á móti öllum ósómanum á hinni vogarskálinni.

Íslenskir kommúnistar fylkja liði á á fjórða áratugnum. Fánar Sovétríkjanna með hamri og sigð eru áberandi.

ÓLÍK ARFLEIFÐ

Pólitísk hreyfing kommúnista og nasista var ekki bundin við þau ríki þar sem þeir komust til valda. Flokkar og samtök sem kenndu sig við þessar stefnur voru starfandi í öllum Evrópuríkjum og víðar. Þar á meðal hér á landi. Og nú er komið að mikilvægu atriði. Rætur mismunandi viðhorfa til kommúnisma og nasisma á okkar dögum má að líkindum ekki síst rekja til ríkjandi hugmynda um starfsemi þessara hreyfinga í einstökum þjóðlöndum og hvert framlag þeirra hafi verið stjórnmála innanlands. Arfleifð kommúnismans og nasismans á Vesturlöndum er að þessu leyti afar ólík. Lítum á Ísland í þessu sambandi. Þjóðernishreyfing Íslendinga var stofnuð 1933 og hafði að stefnumáli að vernda kynstofn Íslendinga fyrir erlendum áhrifum. Upp úr henni spratt ári seinna Flokkur þjóðernissinna sem boðaði að auki stéttasamvinnu og afnám þingræðis. Hann sótti fyrirmyndir sínar til þýska nasistaflokksins þótt engin formleg tengsl væru á milli þeirra. Í blaði flokksins, Íslandi, voru stjórnarhættir í Þýskalandi lofsungnir og gyðingar og kommúnistar atyrtir. Þá var þjóðernissinnum ekki síður í nöp við borgaralegu lýðræðisflokkana og töluðu af mikilli fyrirlitningu um forystumenn þeirra. Kommúnistaflokkur Íslands starfaði á árunum 1930 til 1938. Hann var deild í Alþjóðasambandi kommúnista. Beint og óbeint laut hann fyrirmælum frá kommúnistum sem voru við völd í Sovétríkjunum. Sumir foringjar flokksins höfðu verið í pólitísku námi í Moskvu og hlotið þjálfun til byltingarstarfa. Arftaki hans, Sósíalistaflokkurinn, sem starfaði á árunum 1938 til 1968, var ekki í slíkum formlegum tengslum, en margir forystumanna hans höfðu náið samband við ráðamenn í kommúnistaríkjunum og flokkurinn og fyrirtæki honum tengd nutu þaðan leynilegs fjárhagsstuðnings til starfsemi sinnar. Íslenskir kommúnistar og sósíalistar og blað þeirra, Þjóðviljinn, vörðu lengi stjórnarfarið í Sovétríkjunum og öðrum ríkjum kommúnista af miklu kappi, jafnvel þótt þeim hafi mátt vera ljóst að frásagnir af ógnarstjórninni og skoðanakúgunni þar voru á rökum reistar. Það gaf þessari málsvörn og afneitun meira vægi en ella að í þeirra röðum voru margir listamenn og rithöfundar sem Íslendingar dáðust að, svo sem Halldór Laxness, og tóku þeir í sama streng, sumir gegn betri vitund eins og þeir viðurkenndu síðar.

Fylgi íslenskra nasista var alla tíð afar takmarkað. Mest varð það í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík 1938 þegar flokkurinn hlaut 399 atkvæði, 2,8% atkvæða. Kommúnistaflokkurinn naut mun meiri stuðnings og fékk þingmenn kjörna. Sama er að segja um arftaka hans, Sósíalistaflokkinn, sem varð talsvert öflugur flokkur á Alþingi og í sveitarstjórnum og tók þátt í myndun ríkisstjórnar 1946. Þótt Kommúnistaflokkurinn og síðar Sósíalistaflokksins héldu árangri kommúnista í Sovétríkjunum mjög á lofti byggðist fylgi þeirra áreiðanlega frekar á framlagi þeirra til stjórnmála- og verkalýðsbaráttu innanlands en sannfæringu kjósenda um að Sovét-Ísland væri handan við hornið. Kommúnistar – og síðar sósíalistar – höfðu sig mjög í frammi í verkalýðsfélögunum og voru aðsópsmiklir hvar sem kjaradeilur og verkfallsátök áttu sér stað. Það voru jafnaðarmenn í Alþýðuflokknum reyndar ekki síður og áhrif þeirra líklega meiri. En á þessum vígstöðvum var enga nasista að finna. Telja má næsta víst að mildari afstaða til íslenskra kommúnista en nasista mótist fyrst og fremst af vitneskju um eða trú á þátttöku þeirra í verkalýðsbaráttunni. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að á fyrri hluta síðustu aldar voru lífskjör íslensks verkafólks miklu lakari en síðar varð, opinber stuðningur við fátækt fólk og aðra sem stóðu höllum fæti í lífinu var af skornum skammti, stétta- og efnamunur meiri og rangsleitni af ýmsu tagi fékk að viðgangast án þess að hinir borgaralegu stjórnmálaflokkar, einkum Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hefðust að. Barátta kommúnista fyrir bættum lífskjörum og velferð fyrr á tíð hefur þannig að líkindum náð að vega á móti fordæmanlegum stuðningi þeirra við kommúnistaríkin, stuðningi sem gjarnan var litaður af vanþekkingu og djúpri afneitun. Ísland hefur enga sérstöðu í þessu tilliti miðað við önnur Evrópulönd. Viðhorf til innlendra kommúnista hefur þar ekkert síður en hér mótast af framlagi þeirra til verkalýðsbaráttunnar. Að auki vegur öflug þátttaka þeirra í andspyrnuhreyfingunni gegn þýska hernámsliðinu á stríðsárunum þungt. Síðast en ekki síst hefur öflugt starf kommúnista á menningarsviðinu og stuðningur lista- og menntamanna við þá ráðið miklu um þá mynd sem af þeim hefur skapast.

Íslenskir nasistar í skrúðgöngu í Lækjargötu á fjórða áratugnum.

HLIÐSTÆÐUR EN ÓLÍKT MAT

Kommúnisminn sem þjóðskipulag var engu betri í framkvæmd en nasisminn, þótt ólíkur væri á ýmsum sviðum. Gögn um það verða ekki vefengd. Engum blöðum er um það að fletta að það rikir ákveðinn tvískinnungur í afstöðu margra nú á dögum til þessara tveggja „helstefna“ síðustu aldar. Að hluta til skýrist þessi tvöfeldni af mismunandi sögulegum aðstæðum við hrun þessara stefna og ríkja í Evrópu. En veigamikill þáttur er að kommúnistar njóta í sögulegu endurliti afstöðu sinnar til réttindabaráttu alþýðufólks og starfs að verkalýðsmálum á fyrri hluta síðustu aldar. Þetta yfirskyggir stuðning þeirra við stefnu og stjórnarhætti sem með réttu má telja með hinum verstu og grimmilegastu í sögu mannkyns. Vel má vera að viðhorf á þessu sviði eigi eftir að breytast þegar fram líða stundir, en líklegra er þó að athyglin beinist frekar að nýjum ógnum í samtímanum en uppgjöri við hrollvekjur sögunnar.

Birtist að stofni til í tímaritinu Ský 2. tbl. 2015

















 















































Previous
Previous

Einstök harmsaga á Þingvöllum

Next
Next

Sögufrægar gestabækur