Handritið sem hvarf í Skálholti

Íslendingabók Ara fróða

Ritið er aðeins varðveitt í tveimur pappírsuppskriftum frá 17. öld. Skinnhandritið hvarf í Skálholti.

Í þessum mánuði eru 875 ár liðin frá láti Ara fróða, upphafsmanns íslenskrar sagnaritunar, höfundar Íslendingabókar.  „Þykir mér hans sögn öll merkilegust,“ segir í formála Heimskringlu sem Snorri Sturluson kann að hafa ritað.

Varðveisla Íslendingabókar Ara fróða er ein af hinum stóru gátum íslenskra fornfræða. Miðað við það sem fram kemur í ritinu sjálfu varð frumgerðin til á árunum 1122-1133. Ari fróði lést 1148.

Íslendingabók er aðeins varðveitt í tveimur pappírsuppskriftum séra Jóns Erlendssonar í Villingaholti frá því um miðja 17. öld.  Jón starfaði fyrir Brynjólf Sveinsson biskup í Skálholti sem virðist um þetta leyti hafa komist yfir skinnhandrit af Íslendingabók.

Þetta hljóta að hafa talist mikil tíðindi í þá daga því það er eins og öll handrit Íslendingabókar séu horfin þegar miðöldum lýkur. Ljóst er að Arngrímur lærði (d. 1648) þekkti hana ekki þegar hann ritaði verk sín, þar á meðal Íslandssöguna Crymogæa. Sama er að segja um Björn Jónsson á Skarðsá (d. 1655), höfund Skarðsárannáls. Skyldu þeir ekki hafa orðið undrandi þegar þeir fréttu þetta? Eða fréttu þeir þetta ekki?

Séra Jón taldi sig hafa frumrit Ara fróða í höndunum. Það hefur væntanlega einnig verið skoðun Brynjólfs biskups. Fræðimenn telja að það geti ekki verið. Stafsetning o.fl. veldur því. Þetta handrit hefur líklega verið frá því um 1200.

Einkennilegt að þessir miklu fornfræðamenn, Brynjólfur og séra Jón, sem daglega umgengust elstu skinnhandrit okkar, skuli hafa verið svona glámskyggnir á þetta handrit Íslendingabókar. Enn einkennilegra er þó hitt að hinn mikli varðveislumaður fornra handrita, Brynjólfur biskup, skuli hafa glatað því sem hann taldi vera frumrit Ara fróða. Því skinnhandritið hvarf og er engin skýring á því hvað um það varð. Hvernig gat það gerst? Enginn vissi neitt þegar Árni Magnússon fór að spyrjast fyrir um handritið fáeinum áratugum seinna.

Samkvæmt orðum Ara í upphafi hinnar varðveittu Íslendingabókar eru frá hans hendi tvær gerðir bókarinnar. Hin eldri var borin undir biskupa landsins, Ketil Þorsteinsson og Þorlák Runólfsson, og sjálfan Sæmund fróða. Þeir lögðu til breytingar, vildu fella brott ættartölur og konungaævi (hvað svo sem það nákvæmlega var) og kannski eitthvað fleira. Kvaðst Ari hafa skrifað seinni gerðina í samræmi við þessar athugasemdir.

Um þetta hefur stundum verið talað sem fyrstu ritskoðunina á Íslandi.

En athyglisvert er að þegar miðaldamenn vitna í Ara fróða, svo sem Snorri Sturluson, virðast þeir alltaf vera að vísa til eldri gerðarinnar en ekki þeirrar yngri sem meir var að skapi biskupanna og Sæmundar. Hvernig stendur á því? Hefði ekki átt að vera búið að taka þá gerð úr umferð?

Nema þetta hafi ekki verið nein ritskoðun, bara Ari að auglýsa að helstu höfðingjar landsins væru búnir að veita ritinu gæðastimpil sinn?

Íslendingabók eins og við þekkjum hana úr pappúrsuppskrift Jóns í Villingaholti er um margt einkennilegt rit. Mörgum fræðimönnum hefur þótt hún minna frekar á safn minnisgreina en heillegt rit. Fyrirsögnin á pappírsuppskriftinni „Schedæ Ara prests fróða'“ gefur strax tilefni til heilabrota. Hún getur ekki verið komin úr penna Ara sjálfs. Óljóst er hvað latínuorðið „schedæ“ hefur merkt í þessu samhengi, kannski minnisgreinar.

Úr því sem komið er má telja ólíklegt að þessar gátur allar verði ráðnar. En hvað veit maður svo sem!

Frægastur er Ari fróði nú á dögum fyrir að vera höfundur hinna spaklegu orða: „En hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara reynist.“ En sannleikurinn er sá að hann er ekki höfundur þeirra að öllu leyti. Þetta hefur ekki farið hátt og ég hef leyft mér að kalla þetta  eitt af leyndarmálum íslenskra fræða. Í riti Sverris Tómassonar Formálar íslenskra sagnarita á miðöldum (1988) er ágæt greinargerð um þetta.

Í hinum varðveittu uppskriftum Íslendingabókar segir: „En hvatki er nusagt er í fræðum þessum þá er skylt að hafa það heldur er sannara reynist.“ Ari fróði segir með öðrum orðum hvergi „missagt“ heldur „nusagt“. Þetta fór í taugarnar á Árna Magnússyni. Taldi hann þetta pennaglöp séra Jóns eða í skinnhandritinu sem hann studdist við. Árni breytti setningunni, setti missagt“ í stað nusagt.“  Orðið „missagt“ þekktist þó ekki í íslensku á miðöldum. En þannig hefur þetta verið prentað allar götur síðan.

Previous
Previous

„Friðrik góði“ í Vatnaskógi

Next
Next

„Hinn fyrsti Íslendingur“