„Hinn fyrsti Íslendingur“
Í sögu Íslands hafa tveir menn sérstöðu eins og líkneskin veglegu sem þeim hafa verið reist í miðborg Reykjavíkur, á Arnarhóli og á Austurvelli, bera á sinn hátt vitni um. Þetta eru Ingólfur landnámsmaður og Jón Sigurðsson forseti. Til Ingólfs er venja að rekja upphaf byggðar á Íslandi og þar með upphaf þess að Íslendingar verða til sem sérstök þjóð. Jón Sigurðsson er „óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur,“ leiðtoginn í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu öld sem bar lokaávöxt með stofnun lýðveldisins 1944, en þá urðu Íslendingar „þjóð meðal þjóða“, eins og gjarnan er sagt.
Myndhöggvarinn Einar Jónsson gerði báðar stytturnar í byrjun síðustu aldar. Það er völlur á Jóni Sigurðssyni þar sem hann stendur á háum stalli fyrir framan Alþingishúsið á lafafrakka, óhnepptum og heldur báðum höndum upp við vestishandvegina eins og hann gerði jafnan þegar hann talaði á Alþingi. Fas sjálfstæðishetjunnar og andlitsdrætti þekkti listamaðurinn eins og hvert mannsbarn á Íslandi af ótal ljósmyndum auk þess sem hann hafði fyrir sér brjóstmynd og málverk af fyrirmyndinni í þinghúsinu. Hugmyndaflugið varð hins vegar að ráða ferðinni þegar landnámsmaðurinn var mótaður. Af honum voru engar myndir til. Aftur á móti var ekki langt að sækja ríkjandi hugmyndir um Ingólf og aðra fornkappa; í mannlýsingum hinna gömlu Íslendingasagna, á málverkum og teikningum sem í hugskoti almennings voru þeir ungir karlmenn, hávaxnir og herðabreiðir, stæltir og svipmiklir, vænir yfirlits, vopndjarfir og vígfimir. Í þann tíð hefði enginn tekið undir með skáldinu kaldhæðna, Steini Steinarr, sem árið 1942 orti um Landnámsmann Íslands „Ég var lítill maður og lágur til hnésins,“- þótt sú mynd kunni nú að þykja nær sögulegu raunsæi en listaverkið á Arnarhóli. Ingólfur Einars Jónssonar er eins og sniðinn úr fornsögu; íklæddur hringabrynju, á höfði hans er stálhúfa og um mittið ber hann sverð. Á vinstri hönd styður hann sig við atgeir og á hægri hönd við skjöld sem stendur upp við öndvegisbrík með drekahöfði.
Langt fram yfir miðja síðustu öld efuðust fáir um að Ingólfur hefði verið af holdi og blóði ekkert síður en Jón Sigurðsson. Þegar minnisvarðinn var vígður við hátíðlega athöfn í febrúar 1924 var Ingólfur hylltur sem „þjóðfaðir“ og „hinn fyrsti Íslendingur.“ Heimildirnar um hann voru taldar traustar. Í Íslendingabók Ara fróða, sem rituð er snemma á tólftu öld, segir afdráttarlaust að Ísland hafi byggst úr Noregi á dögum Haralds konungs hárfagra í þann tíð „er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englandskonung, en það var sjö tigum vetra hins níunda hundraðs eftir burð Krists“ (þ.e. árið 870). Ingólfur, „maður norrænn“, hafi fyrstur farið frá Noregi til Íslands, komið hingað tvívegis, og í seinna skiptið sest að til frambúðar þar sem nú er Reykjavík. Í Landnámabók, sem er talsvert yngra rit og til í nokkrum gerðum, segir ýmislegt um Ingólf sem Ari lætur ósagt; um öndvegissúlur sem hann á að hafa skotið fyrir borð á siglingunni til Íslands, og vísuðu honum veginn til Reykjavíkur, um Hjörleif fóstbróður hans sem ekki vildi blóta goðin og hlaut af þeim sökum grimm örlög, og um þrælana illu sem hlupust á brott en voru felldir. Í einni gerð Landnámabókar hefur skrásetjarinn talið sig geta fest nákvæmara upphafsár landnámsins en Ara fróða var kleift:
Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð [ára] og sjö tigir og fjögur ár [874].
Þarna er komið ártalið sem þjóðhátíðirnar miklu 1874 og 1974 miðuðust við, og er enn í dag hið opinbera landnámsár Íslands.
Í Landnámabók er einnig að finna frásögn um sæfarana Naddoð, Garðar Svavarsson og Hrafna-Flóka, sem eiga að hafa fundið Ísland nokkrum árum á undan Ingólfi án þess að setjast að. Flóki á að hafa gengið upp á fjall eitt hátt eftir vetrardvöl hér, séð fjörð fullan af hafís og gefið landinu það nafn, Ísland, sem það hefur síðan borið. Um það hvernig sú nafngjöf festist við landið og fréttist, er ekkert sagt.
Um brottför Garðars eftir vetrarvist á Íslandi segir í Landnámabók:
Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík.
Þetta á að hafa verið áður en Ingólfur settist hér að, en samt er Náttfari ekki talinn fyrsti landnámsmaðurinn, og ekki minnist Ari á hann.
Þegar Ingólfsstyttan var afhjúpuð voru Íslendingasögurnar og aðrar fornbókmenntir enn í hávegum hafðar sem sagnfræðileg rit. Lýsingar þeirra á fyrstu öldum byggðar voru taldar réttar og sannorðar. Fáir efuðust um að persónurnar sem þar koma við sögu hefðu verið til og atburðir gerst eins og sögurnar greina frá þeim. Algengt var að menn rektu ættir sínar til kappa og kvenskörunga sagnanna. Má raunar enn skemmta sér við slíkt í Íslendingabók hinni nýju á netinu. Þegar farið var að nefna götur í Reykjavík þótti Ingólfsstræti sjálfsagt heiti í virðingarskyni við landnámsmanninn; seinna fylgdu götur fornkappa eins og Grettis og Njáls, Egils Skallagrímssonar og Leifs heppna, og þannig áfram; jafnvel þrælar Ingólfs, Vífill og Karli, fengur sínar götur, þótt enginn gæti að vísu rakið ættir til þeirra!
Þessi viðhorf til fornsagnanna áttu eftir að breytast eins og alkunna er. Nú er það almenn skoðun að Íslendingasögur séu höfundarverk, samdar um leið og þær voru skrifaðar á þrettándu öld, en hafi síðan tekið mismunandi miklum breytingum í uppskriftum. Yfirleitt er litið svo á að þær hafi upphaflega stuðst við munnmæli, sagnir og gamlar vísur, frekar en að þær séu skáldaðar upp frá grunni. Enginn treystir þeim lengur sem sagnfræðilegri heimild um söguefnið. Íslandssögunni sem ég lærði í barnaskóla á sjöunda áratug síðustu aldar, og notuð var fram á níunda áratuginn, fylgdi þó í hinum gamla stíl heill kafli um hetjur Íslendingasagna, en þar var í fyrsta sinn varnagli sleginn um að sögurnar hafi verið færðar í letur tveimur til þremur öldum eftir atburðina. Það var þó hógværlega orðað:
Hætt er við að sannfræðin í sögunum hafi stundum orðið að lúta í lægra haldi fyrir kröfum listarinnar.
Lengi eftir að fræðimenn gáfu Íslendingasögur upp á bátinn sem heimildir um þann tíma sem þær segja frá báru þeir næsta ótakmarkað traust til Íslendingabókar og Landnámabókar. Þær voru skilgreindar sem fræði. Þegar Kristján Eldjárn sagði að Ísland ætti sér „enga forsögu,“ og Sigurður Nordal að Íslendingar einir þjóða í Norðurálfu myndu til upphafs síns, voru þeir með þessar bækur í huga. Þó var yfirleitt viðurkennt að ýmislegt orkaði tvímælis í Landnámabók, nafnabrengl, þó nokkrar grunsamlegar ættfærslur og eitthvað væri um ótrúverðugar frásagnir af landnámsmönnum og forfeðrum þeirra. Þá þótti ekki traustvekjandi að föðurnafn Ingólfs landnámsmanns er ekki hið sama í mismunandi gerðum bókarinnar (en það er ekki tilgreint í Íslendingabók). Hann er ýmist sagður Arnarson eða Björnólfsson. Einn snjallasti sagnfræðingur þjóðarinnar „leysti vandann“ með því að stinga upp á að Björnólfur faðir hans hefði haft viðurnefnið örn. Þannig gat Ingólfur verið bæði Arnarson og Björnólfsson!
En smám saman varð mun gagnrýnna viðhorf til þessara bóka einnig ofan á. Flestir fræðimenn fallast nú á að engar líkur eru til þess að á tólftu og þrettándu öld hafi menn getað haft áreiðanlega vitneskju um nöfn, uppruna og ættir landnámsmanna í ritmálslausu þjóðfélagi níundu og tíundu aldar. Þegar á átjándu öld hafði handritasafnarinn Árni Magnússon áttað sig á því að Íslendingasögum væri ekki að treysta af sömu ástæðu. Of langur tími hefði liðið frá því að atburðirnir gerðust þar til þær voru skráðar. Flestar eru sögurnar „skrifaðar svo seint að authores kunnu ei vel vita veritatem gestorum,“ hripaði hann niður á minnisblað á sínu latínuskotna máli, en birti því miður aldrei neitt um þessar efasemdir sínar.
Vel má hugsa sér að í einstaka fjölskyldum hafi menn varðveitt vitneskju um forfeður sína í einhverjar kynslóðir. En fjarstæðukennt er að halda að það hafi almennt gilt í þjóðfélaginu. Enda kemur á daginn þegar farið er í saumana á ættfærslum Landnámabókar að skrásetjarar hennar hafa ótæpilega iðkað „skapandi ættfræði.“ Þeir hafa búið til menn og tengsl þegar hentaði, og hiklaust sótt efnivið í þjóðsögur og goðsagnir sem þeir þekktu. Í Íslendingabók rekur Ari fróði eigin ættir aftur í gráa forneskju, 36 kynslóðir aftur í tímann. Sumir evrópskir samtímamenn hans röktu ættir konunga til Adams og Evu og töldu sig hafa traustar heimildir fyrir þeirri ættfræði. Ástæðulaust er að hallmæla þeim fyrir þessi vinnubrögð, þótt við leyfum okkar að brosa. Miðaldamenn unnu eftir aðferðum sem voru í samræmi við hugmyndir og skilning þeirra tíma; þær voru aðrar en við nútímamenn tökum gildar, en lutu sínum lögmálum og rökum, og bera að virða sem slíkar.
Nöfn landnámsmanna í Íslendingabók og Landnámabók eiga vafalaust ólíkan uppruna, en færð hafa verið sannfærandi rök fyrir því að fjöldi þeirra er örnefnaskýringar sem kallað er. Íslensk örnefni, ekki síst staðanöfn, virðast í öndverðu oftast hafa verið dregin af náttúrufari eins og Þórhallur heitinn Vilmundarson hélt fram, búskapar- og þjóðháttum frekar en raunverulegum mannanöfnum, viðurnefnum og atburðum. Gjarnan var byggt á fyrirmyndum frá heimalandinu, en seinni tíma menn hneigðust til að lesa mannanöfn úr örnefnunum þegar fram liðu stundir, sagnir höfðu myndast, tungan breyst og heiti afbakast. Í Landnámabók úir og grúir af dæmum sem bera vitni um þetta. Ekki er ólíklegt að rekja megi uppruna Ingólfs á þennan hátt. Það er varla tilviljun að Ari fróði nefnir Ingólfshöfða og Ingólfsfjall, og þekkir ekki föðurnafn fyrsta landnámsmannsins. Það bendir til þess að nafn hans sé fengið af fjallinu en ekki öfugt eins og Þórhallur benti eitt sinn á í fyrirlestri (ing=tindur, ólfur=langt, framskagandi fjall). Náttfari, fylgdarmaður Garðars Svavarssonar, gæti hafa fengið nafn sitt af víkinni sem við hann er kennd. Þar er áberandi ljós klettur sem lýsir upp í tunglsljósi. Tengingin er augljós þegar búið er að benda á hana.
Ingólfur og Náttfari eiga með öðrum orðum frekar heima í þjóðsögu en hinni eiginlegu þjóðarsögu. En minnisvarði Ingólfs á Arnarhóli er vissulega glæsilegt listaverk. Hann er ágæt táknmynd um landnámsmenn Íslands, óháð því hverjir þeir voru nákvæmlega, hvað þeir hétu og hvaðan þeir komu.
Þetta er brot úr gömlu ófullgerðu verki minu um Íslandssögu, Feðranna frægð, mæðranna mæða.