„Friðrik góði“ í Vatnaskógi
Rúnar Guðbjartsson fyrrv. flugstjóri skrifar einlæga og athyglisverða grein um séra Friðrik Friðriksson sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Rúnar, sem er tæplega níræður, segir þar frá samskiptum sínum við hann í sumarbúðunum í Vatnaskógi 1945. Ártalið er að vísu misminni Rúnars því Friðrik var í Danmörku þetta sumar og kom ekki heim til Íslands fyrr en í nóvember. En strax næsta sumar, 1946, var séra Friðrik í Vatnaskógi með „drengjunum sínum.” Rúnar hefur þá verið á tólfta ári, fæddur í nóvember 1934.
Þetta er um tíu árum fyrr en atvikið sem greint er frá í bók minni Séra Friðrik og drengirnir hans. Ég leyfi mér að vitna orðrétt í grein Rúnars:
Yfir morgunmatnum einn daginn tilkynnti starfsmaður að séra Friðrik langaði mikið til að kynnast okkur drengjum betur en við værum svo margir að það væri ekki hægt.
Því hafði verið ákveðið að einum dreng frá hverju borði yrði boðið að heimsækja séra Friðrik í herbergið hans eftir hádegi þennan dag og mæta kl. 13.30 fyrir framan herbergið hans. Síðan benti starfsmaðurinn á einn dreng við hvert borð og sagði: Þú, þú og þú, og hann benti á mig líka, ætli við höfum ekki verið 5-6 drengir. Við drengirnir söfnuðumst saman fyrir framan herbergi séra Friðriks.
Þegar ég kom inn bauð séra Friðrik mér að setjast í kjöltu sína sem ég þáði, jú, hann var séra Friðrik góði. Hann tók þéttingsfast utan um mig og setti vangann sinn á minn vanga og knúsaði mig og strauk ekki ósvipað því sem faðir minn gerði við mig í mikilli gleði eða sorg. Hann ræddi við mig þó nokkra stund, spurði nafns og hvar ég ætti heima, hvað væri gaman og svo framvegis. Ég sagði honum að ég hefði veitt silung og þætti gaman að spila borðtennis og fleira í þeim dúr.
Rúnar talar um „ógleymanlegar minningar“ í þessu sambandi og að séra Friðrik hafi notið „virðingar allra fyrir framkomu sína og góðvild í garð okkar drengjanna.“ Hann talar líka um „Friðrik góða.”
Mér finnst athyglisvert að þarna er staðfest að atvikið í húsi KFUM, sem greint er frá í bók minni, er ekki einstakt, þótt upplifun Rúnars virðist önnur en heimildarmanns míns. Starfsmenn KFUM eða foringjar í félaginu, allt lærisveinar séra Friðriks, virðast hafa haft það fyrir sið, a.m.k. frá því að hann kom aftur heim til Íslands eftir dvöl í Danmörku á stríðsárunum, að velja ákveðna drengi til að fara eina inn í svefnherbergi hans, þar sem hann vangar þá, knúsar og strýkur. Frásögnin í bók minni er með öðrum orðum ekki einangrað atvik.
Þegar KFUM gerir upp við minningu séra Friðriks hlýtur félagið einnig að líta í eigin barm, þótt langt sé um liðið.