Sögufrægar gestabækur
Gestabækur, gamlar og nýjar, eru á flestum heimilum. Þær nýrri eru dregnar fram þegar veislur eru haldnar en hinar eldri þegar menn vilja orna sér við minningar sem þeim eru hugstæðar. Gestabækur sem geyma nöfn frægra manna eru gjarnan í hávegum hafðar. Hér segir frá fjórum slíkum bókum, sem reyndar voru ekki til heimilishalds heldur opinberrar notkunar, einni frá miðöldum, annarri frá fyrri hluta 19. aldar og tveimur frá öldinni sem leið. Allar eru þær hluti af sögu okkar með einum eða öðrum hætti.
Suðurgöngumenn á miðöldum
Elsta bókin sem ég geri að umræðuefni er frábrugðin öðrum gestabókum að því leyti að gestirnir hafa ekki skrifað nöfnin sín sjálfir í hana og sumir voru ekki viðstaddir þegar nöfn þeirra voru skráð. Þetta er hin svonefnda Bræðralagsbók frá hinu forna klaustri Richenau við Bodensee í Þýskalandi. Bókin er aðgengileg í stafrænu formi á netinu. Eintök af prentuðu útgáfunni eru víða á söfnum, m.a. á Landsbókasafninu. Frumgerðin er á safni í Sviss. Í bókina skráðu munkarnir nöfn þeirra sem taldir voru í bræðralagi við klaustrið og eins nöfn pílagríma á leið til Rómar eða annarra helgistaða kristninnar. Sumir hafa verið skráðir í bókina án þess að koma nokkru sinni í klaustrið, ef viðkomandi var talinn því hliðhollur eða lagði því eitthvað til. Bókin geymir nær 40 þúsund nöfn, þar af um 700 til 800 norrænna manna, og spannar tímabilið frá því á áttundu öld og fram til hinnar þrettándu. Íslendingar hafa lengi vitað af bókinni og varð Jón Sigurðsson forseti og skjalavörður fyrstur til að birta nöfn hóps Íslendinga sem skráðir eru í bókina og gætu hafa verið pílagrímar eða suðurgöngumenn. Nöfnin er að finna í fyrsta bindi Fornbréfasafnsins sem Jón gaf út 1857. Hann skoðaði bókina þó ekki sjálfur heldur studdist við afskrift sem hann hafði undir höndum. Jón taldi að rekja mætti til Íslands nöfn 39 manna. Taldi hann að eitt þeirra gæti verið frá því um 1100.
Varkárir fræðimenn hafa á síðari árum talað um að líklegra sé að í gestabókinni sé að finna nöfn 13 manna, karla og kvenna, sem rekja megi til Íslands. Þetta eru allt norræn nöfn og ástæðan fyrir því að við getum útilokað önnur lönd er að yfir þeim er yfirskriftin „Hislant ter[ra]“, þ.e. frá Íslandi. Þetta eru nöfnin Geirlaug (Kerloc), Kormakr (Curmaker), Arnórr (Arnur), Vigdís (Wiegedies), Már (Mar), Vilborg (Williburg), Vémundur (Wimuder), Þórarinn (Zuririn), Kolþerna (Culzenna), Guðmundr (Gudemunder), Zurrider (Þórríður), Þórðr (Zurder) og Steinröðr (Stenruder). Ekki er hægt að rekja þessi nöfn til þekktra Íslendinga á miðöldum, enda ekki vitað með vissu frá hvaða tíma þau eru.
Nafnalistinn bendir óneitanlega til þess að eitthvað hafi verið um suðurgöngur Íslendinga fyrr á öldum. Ég veit ekki til þess að neinn íslenskur fræðimaður hafi rannsakað hinn íslenska hluta til hlítar eða skoðað bókfellið sjálft síðan Finnur Jónsson prófessor gerði það á þriðja áratug síðustu aldar og birti niðurstöður rannsóknar sinnar í Aarboger for Nordisk Oldkyndighed 1923. Væri það þó þarft verkt að gera það í ljósi nútíma þekkingar og tækni.
„Hér kem ég!“
Nú förum við yfir aldir og haf og staðnæmust í Kaupmannahöfn í janúar 1839. Þá héldu Íslendingar þar franska lækninum og landkönnuðinum J. Paul Gaimard samsæti á veitingahúsi nokkru og hylltu hann fyrir Íslandsleiðangra sína 1835 og 1836 og þá miklu kynningu á sögu, menningu og náttúru Íslands sem hann hafði hafist handa um. Skáldin í hópnum mærðu hann í ljóðum sem flutt voru í veislunni. Jónas Hallgrímsson færði Gaimard kvæði, sem margir telja eitt hið fegursta sem ort hefur verið á íslenska tungu. Það heitir Til herra Páls Gaimard og hefst á orðunum „Þú stóðst á tindi Heklu hám og horfðir yfir landið fríða.“ Gestalistinn úr þessu boði fannst fyrir tilviljun í fornbókabúð í París á níunda áratug síðustu aldar. Er hann á öftustu blaðsíðu stórrar bókar sem virðist vera frumgerð einnar þeirra stóru og ríkulega myndskreyttu bóka sem leiðangursmenn gáfu út. Hér er því ekki um eiginlega gestabók að ræða.
Sigurður heitinn Jónsson líffræðingur, sem búsettur var í París, keypti bókina í fornbókabúðinni og var honum sagt að hún væri komin úr búi fransks flotaforingja. Upphaflega hefur hún verið í eigu Gaimards. Þarna er að finna nöfn, fæðingarstað og fæðingardag 32 Íslendinga, þar á meðal nokkurra þekktustu og merkustu manna 19. aldar, rituð með eigin hendi þeirra. Í þeim hópi eru Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson. Myndirnar í bókinni, koparstungur, eru sumar nokkuð frábrugðnar þeim sem fylgdu endanlegu útgáfunni og styður það hugmyndina um að hér sé einhvers konar frumgerð verksins. Gæti verið að Gamiard hafi viljað sýna Íslendingunum hvað í vændum væri.
Mynd af gestalistanum kom ekki fyrir sjónir almennings fyrr en vorið 2015 þegar ég gekk í málið og birti hana í grein sem ég ritaði í Morgunblaðið. Áður hafði þó verið kunnugt um tilvist gestalistans og örfáir fengið að skoða hann. Birtist blaðafrétt um málið á sínum tíma. Ekki mátti ég gefa upp nafn þáverandi eiganda og veit ég ekki af hverju sú viðkvæmni stafaði. Bókasafnarar eru stundum kynlegir kvistir!
Eiginhandarskrift gestanna er nokkuð skýr, en yfirleitt frekar smá. Undantekning frá því er helst áritun Jóns Sigurðssonar sem er ekki aðeins skýr heldur stærri en annarra. Það er eins og hann vilji segja „Hér kem ég!“ Þarna er hann rétt 28 ára gamall, sinnir fræðistörfum og er ekki byrjaður að hafa afskipti af stjórnmálum að ráði. Kannski er Jón byrjaður að finna svolítið til sín á þessum tíma. Annað sem vekur athygli er að fæðingarár, sem nokkrir gestanna rita, eru ekki hin sömu og í kirkjubókum. Jónas Hallgrímsson skrifar að hann sé fæddur 16. nóvember 1808, en ekki 1807 eins og segir í kirkjubókinni í heimasókn hans. Pétur Havsteen, síðar amtmaður, telur sig fæddan 1813, en kirkjubókin segir 1812. Hallgrímur Jónsson „hattari“ skrifar fæðingarár sitt 1812, en það hefur verið talið 1810. Fleiri dæmi mætti nefna. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Kirkjubækur voru til dæmis ekki alltaf færðar jafnóðum og geta stundum verið ónákvæmar. Vera má að það hafi verið að ósk Gaimards að gestirnir rituðu ekki aðeins nafn sitt á listann heldur einnig fæðingarár og fæðingarstað. Hann hafði ferðast um landið og gat því í sumum tilvikum tengt heimasveit þeirra við minningar sínar frá Íslandi.
Gestir frá Thule á þýskri knæpu
Næst færum við okkur yfir á þriðja áratug 20. aldar. Haustið 1921 er hópur Íslendinga staddur í Leipzig í Þýskalandi, sumir við nám, aðrir á ferðalagi af ýmsum ástæðum. Sjö manns sem tengjast frændsemisböndum ákveða að hittast á fornfrægri knæpu í borginni, Auerbachs Keller, sem starfrækt hefur verið í margar aldir. Í hópinn slæst ungur maður sem er að hefja nám í bókmenntum við háskóla borgarinnar þetta haust. Íslendingunum hefur þótt forvitnilegt að kynnast þessari gömlu knæpu sem einna þekktust er fyrir það að skáldið Goethe sótti hana og lætur kafla í leikriti sínu Faust gerast þar. Þeir hafa vafalaust líka haft gaman að því að fletta hinum gömu gestabókum á staðnum sem ná yfir langt tímabil.
Íslendingarnir sem rita nöfn sín í bókina undir lok október 1921 voru allir eða urðu síðar þjóðkunnir. Þetta eru Páll Ísólfsson tónskáld og síðar dómorganisti (1893-1974) og fyrri kona hans Kristín Norðmann (1898-1944); Ásta Norðmann (1904-1985), þá aðeins 17 ára gömul, en hún var að læra dans í Leipzig og stofnaði fyrsta dansskólann hér á landi; Árni B. Björnsson gullsmiður og kaupmaður (1897-1947); Haraldur Árnason kaupmaður (1886-1949) og kona hans Arndís Bartels Árnason (1886-1950); Sigurður Nordal prófessor, hinn mikli bókmenntapáfi okkar Íslendinga (1886-1974), sem var á þessum tíma að vinna að útgáfu Völuspár og þurfti að komast á þýsk bókasöfn, og loks Jóhann Jónsson skáld (1896-1932) sem var búsettur í Leipzig frá 1921 og þar til hann lést langt fyrir aldur fram 1932.
Mynd úr gestabókinni, þar sem ofangreind nöfn er að finna, var færð Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að gjöf þegar hann var í opinberri heimsókn í Þýskalandi sumarið 2013. Kom hann þá til Leipzig til að heiðra minningu Jóhanns Jónssonar. Embættismenn forsetaskrifstofunnar voru svo vinsamlegir að ljá höfundi þessa pistils myndina til birtingar.
Athygli vekur að til hliðar við nafnarununa á efri myndinni hefur verið skrifað að gestirnir séu „frá Thule.“ Goethe orti frægt kvæði Der König in Thule. Rithönd Jóhanns Jónssonar er þarna auðgreinanleg. Nafn hans er stakt á næstu síðu og kann að vera að hann hafi komið eitthvað seinna til samkomunnar. Áritun hans er skýr og stærri en annarra gesta og minnir að því leyti á áritun Jóns forseta á gestalista Paul Gaimard. Svo hefur hann skrifað undir nafn sitt tilvitnun í Faust eftir Goethe: „Greif hinein ins volle Menschen Leben.“ Orðin eru hvatning til að lifa lífinu til fullnustu. Mega lesendur gjarnan senda mér tillögu um hvernig best er að þýða þau á okkar ylhýra. Spekina höfðu íslenskir menntamenn í Þýskalandi gjarnan á hraðbergi fyrr á tíð.
„Daring mission”
Loks skal minnst gestabókar frá leiðtogafundi Ronalds Reagan og Mikhails Gorbatsjov í Höfða haustið 1986. Mér er sá fundur sérstaklega minnisstæður því ég var í hópi blaðamanna Morgunblaðsins sem fylgdust með fundinum. Nokkrum vikum eftir að honum lauk sendi ég svo frá mér fyrstu bók mín, Leiðtogafundurinn í Reykjavík.
Fundurinn var haldinn hér í boði ríkisstjórnarinnar en fundarstaðurinn, Höfði, var í eigu borgarinnar og þurfti því samþykki borgaryfirvalda fyrir notkun hússins. Davíð Oddsson var borgarstjóri á þessum tíma. Á 20 ára afmæli leiðtogafundarins 2006 lét hann eftirfarandi orð falla í viðtali við Morgunblaðið:
Ég held ég hafi verið eini fulltrúinn sem hitti þá Reagan og Gorbatsjov saman. Ég beið inni í Höfða með borgarstjórakeðjuna á brjóstinu til að afhenda þeim húsið til fundahaldanna. Svo var ég líka með gestabók, sem ég hafði látið gera úr geitaskinni. Reyndar höfðu fulltrúar þeirra sagt mér fyrir fundinn, að ég gæti gleymt gestabókinni því þeir myndu ekki skrifa á eitt eða neitt í Höfða. Ég hafði samband við Matthías Á. Mathiesen, sem þá var utanríkisráðherra, en hann hringdi í mig til baka og sagði menn harðneita því að leiðtogarnir myndu skrifa í gestabókina. Mér fannst þetta nú hart, eftir allt saman var það Reykjavíkurborg sem lánaði húsið til fundarins og mér fannst það satt að segja ekki til of mikils mælst að leiðtogarnir kvittuðu fyrir lánið! Ég hafði líka samband við Steingrím Hermannsson forsætisráðherra, en hann bar til baka þau svör, að bæði Kreml og Hvíta húsið harðneituðu. Þrátt fyrir þetta ákvað ég að tölta með bókina inn í Höfða og þegar Reagan kom, þá spurði ég hann hvort hann myndi vilja skrifa í gestabókina. Ég sá að þessi bón olli titringi meðal manna, en Reagan sagði strax já og svo Gorbachev líka. Síðan kom öll strollan og skrifaði í bókina, Shultz og Shevardnadze og þeir allir. Þegar ég fór hugsaði ég með mér að best væri að taka bókina með mér; þeir gætu alltaf fundið upp á því að rífa síðuna úr henni, svo ég labbaði út með gestabókina undir hendinni. Nú er hún lítil gersemi í Höfða.
Skemmtileg frásögn. En lokaorðin í viðtalinu eru misminni Davíðs. Þetta man ég svo vel vegna þess að við á Morgunblaðinu biðum eftir því að fá bókina til ljósmyndunar og birtum mynd af henni með öllum nöfnunum á einni aðalfréttasíðunni daginn eftir. Davíð hafði ekki tekið hana með sér úr húsi og því þurfti að gera ráðstafanir til að sækja hana. Það mátti heita „daring mission“ því fundur Reagans og Gorbatsjovs var hafinn og engum óviðkomandi átti að hleypa nálægt Höfða. Vopnaðir öryggisverðir, bandarískir og sovéskir, gættu þess að boðflennur héldu sig fjarri húsinu. Bein útsending var frá staðnum í sjónvarpi og beindust tökuvélarnar að innganginum í Höfða. Birtist þá ekki reykviskur lögreglubíll óvænt og ekur upp að húsinu eftir að forviða öryggisverðir hafa eftir stutt samtal hleypt honum að. Lögreglan heyrði á þessum tíma undir borgarstjóra og þarna var á ferð Magnús Einarsson yfirlögregluþjónn að hlýða fyrirmælum yfirboðara sinna að sækja gestabókina góðu svo Morgunblaðið gæti birt mynd af henni með nöfnum voldugustu manna veraldar á þeim tíma. Nú mundu menn vafalaust fetta fingur út í svona vinnubrögð, en mér er óhætt að fullyrða að ekkert hafi vakað fyrir borgarstjóra nema velvild í garð blaðsins .
Gestabókin frá leiðtogafundinum er enn varðveitt og mun Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hafa fengið að skrifa nafn sitt á auða síðu þar þegar hann heimsótti Ísland fyrir nokkrum árum.