Um tildrög bókar minnar um séra Friðrik
Í Friðriksstofu
Skjöl og bréf séra Friðriks Friðrikssonar frá löngum æviferli eru varðveitt í svokallaðri Friðriksstofu í húsi KFUM við Holtaveg. Þangað kom ég oft meðan ég var að rannsaka og skrifa sögu séra Friðriks.
Tilviljun réð því að ég skrifaði ævisögu séra Friðriks Friðrikssonar sem nú er komin út. Tildrögin voru þau að þegar ég var að skoða skjöl Eggerts Claessen við ritun ævisögu hans veturinn 2016 til 2017 rakst ég á nokkur gömul sendibréf til hans frá árunum 1890 til 1895. Þau voru frá Friðriki meðan hann var enn í skóla, þá 21 til 27 ára gamall. Eggert var aftur á móti 12 til 17 ára. Næstum tíu ára aldursmunur var á þeim og Eggert í rauninni bara barn þegar kynni þeirra hefjast. Þessi bréf vöktu forvitni mína vegna þess hve innilega eða ástúðlega þau eru skrifuð. Mörg þeirra hafa ásýnd ástarbréfa eins og piltar skrifuðu stúlkum eða stúlkur piltum á þessum tíma. Mjög lítið er varðveitt um samkynja ástir frá 19. öld, efnið var algjört tabú í gamla þjóðfélaginu, og mér fannst ég þess vegna þurfa að kynna mér betur hvernig samskiptum þeirra Friðriks og Eggerts var háttað.
KFUM varðveitir skjöl Friðriks í höfuðstöðvum sínum við Holtaveg. Ég fékk leyfi til skoða safnið haustið 2017 og fór síðan margsinnis til að kynna mér það. Nokkur bréf Eggerts til Friðriks reyndust vera varðveitt í Friðriksstofu. Þau eru allt annars eðlis en bréfin til hans frá Friðriki, líkjast frekar venjulegum kunningja- eða vinabréfum. Jafnframt fór ég að lesa mér til um sögu séra Friðriks og kom þá margt mér mjög á óvart, sérstaklega hvernig hann lýsir samskiptum sínum við drengi og pilta. Smám saman mótaðist sú hugmynd að skrifa bók um séra Friðrik og varð það ofan á. Bókin er að stórum hluta hefðbundin sagnfræðileg ævisaga þar sem rakið er lífshlaup Friðriks og starfsferill. Sjónum er þó sérstaklega beint að dálæti hans á drengjum og samskiptum við þá enda má segja að þau séu gildasti þátturinn í endurminningum hans.
Bókin er nú í dreifingu í verslanir um land allt. Á næstunni mun ég hér á vefnum víkja að ýmsu sem hún hefur að geyma.