Örlög Þorfinns karlsefnis í Ameríku
Þeir sem leið eiga um Fairmont-lystigarðinn í Fíladelfíuborg í Bandaríkjunum kunna að staldra við þennan auða stöpul. Við hlið hans er gamalt skilti þar sem segir að hér sé líkneski af vesturfaranum Þorfinni karlsefni eftir Einar Jónsson myndhöggvara. Meira en hundrað ár eru liðin síðan verkinu var komið þarna fyrir. Það er rúmlega tveggja metra hátt. Fyrir sex árum, haustið 2018, réðust róttækir aðgerðasinnar á það, slettu yfir það rauðri málningu, brutu höfuðuð af og veltu líkneskinu ofan í Schuylkillá sem rennur meðfram garðinum. Borgaryfirvöld sögðu að verkið yrði lagfært. Ekkert hefur síðan frést af því. Lítið hefur verið fjallað um þetta í fjölmiðlum vestanhafs - og þögn verið um það í íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár að ég best veit - en samkvæmt fyrstu fréttum var talið að skemmdarvargarnir hefðu skeytt skapi sínu á verkinu vegna þess að bandarískir nýnasistar höfðu nokkrum sinnum safnast þar saman til fundahalda og hyllt 'víkinginn' norræna.
Þegar líkneskið var afhjúpað 1920 flutti sá gagnmerki maður Halldór Hermannsson prófessor (1878-1958) hugvekju og lét þessi orð falla um Þorfinn karlsefni:
Við sjáum hann hér í fullum herbúnaði, en við verðum að muna það, að bakvið þennan brynjustakk er ekki víkingur sem hafði bardaga að atvinnu, eins og svo margir norrænir menn á fyrri dögum, heldur fjölhæfur maður á friðsamleg fyrirtæki – duglegur kaupmaður, starfsamur bóndi, þrautseigur siglingamaður og hugrakkur en þó gætinn könnuður óþekktra landa.
Bandarísku öfgamennirnir hefðu líklega gott af því að heyra þetta. Mörgum finnst sorglegt það metnaðarleysi borgaryfirvalda í Fíladelfíu og stjórnar Fairmont garðsins að láta skemmdarvargana ráða örlögum þessa merkilega líkneskis Einars Jónssonar.
Föstudaginn 6. september birtist á vef Alþingis svar Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra við fyrirspurn um þetta mál. Segir þar að Listasafn Einars Jónssonar hafi spurst fyrir um verkið og fengið þau svör að það sé í geymslu og viðgerð. Hafi ráðuneytið engin áform um að hafa áhrif á endurreisn styttunnar í Bandaríkjunum, enda innanríkismál þar.