Skáldið og klæðskerinn

Vináttan sem skipti sköpum

Jóhann skáld Jónsson og Helgi Þorkelsson klæðskeri.

Áður óþekkt ljósmynd af Jóhanni Jónssyni og Helga Þorkelssyni, sem rak á fjörur blaðsins, vekur þá skemmtilegu spurningu hvort „bítlahár“ hafi verið komið í tísku meðal ungra manna í Reykjavík hálfri öld fyrr en ensku Bítlarnir komu til sögu. Myndin gefur þó ekki síður tilefni til að rifja upp vináttu þessara tveggja manna á þeim dögum þegar fátækt var slík hér á landi að það var ekki sjálfsagt að hafa þak yfir höfuðið eða eiga fyrir fæði og klæðum.

Jóhann Jónsson (1896-1932), skáldið sem orti ljóðið fræga, Söknuð („Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað ...“), og Helgi Þorkelsson (1886-1970), klæðskeri og síðar verkalýðsforingi, kynntust líklega sumarið 1915, Jóhann var þá á 19. ári og Helgi tíu árum eldri. Á milli þeirra tókst náin vinátta sem átti stóran þátt í því að Jóhann gat hafið nám í Menntaskólanum í Reykjavík haustið 1917 og lokið stúdentsprófi 1920. Helgi, sem var í fastri vinnu, skaut skjólshúsi yfir hann vegalausan og snauðan og varð fjárhaldsmaður hans og fóstbróðir.

Ljósmyndin mun tekin einhvern tíma á árunum 1915 til 1917. Ef skoðaðar eru myndir af ungum mönnum í Reykjavík, til dæmis skólapiltum, frá þessum árum eru þeir yfirleitt snyrtilega klipptir. Ekki hafa í fljótheitum fundist dæmi um að nokkur hafi verið jafn hárprúður og Jóhann Jónsson er þarna. Það voru því engir „bítlar“ í bænum á þessum tíma nema þá Jóhann. Vel má vera að Jóhann hafi einfaldlega tekið það upp hjá sjálfum sér án sérstakrar ástæðu að láta sér vaxa þessi mikli makki en kannski vildi hann líkjast frægum listamönnum og skáldum í útlöndum sem margir söfnuðu hári til að skera sig úr fjöldanum.

Jóhann var úr fátækri fjölskyldu í Ólafsvík en sýndi snemma skáldleg tilþrif og menntahneigð og það varð til þess að hann var studdur til að leggja fyrir sig skólanám. Hann kom suður haustið 1913, 17 ára gamall, til að hefja nám í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Veikindi hans um veturinn urðu þess valdandi að honum var boðið til hvíldardvalar á bænum Galtafelli í Ölfusi. Þar bjuggu foreldrar Einars Jónssonar sem var orðinn frægur myndhöggvari. Einar og Helgi Þorkelsson voru gamlir vinir, höfðu kynnst í Guðspekifélaginu, og milli Jóhanns og Einars tókst líka góður kunningskapur. Ekki er ósennilegt að rekja megi upphaf kunningsskapar Helga og Jóhanns Jónssonar til dvalarinnar á Galtafelli.

Jóhann kemur til Reykjavíkur sumarið 1915 í von um að geta tekið inntökupróf í Menntaskólann og hafið nám um haustið. Þeir Helgi kynntust þá og sórust í fóstbræðralag að fornum sið með því að láta blóð drjúpa. Jóhann var húsnæðislaus og bauð Helgi honum að flytja í hýbýli sín á Kárastíg 11. Helgi var einhleypur á þessum tíma og í öruggu starfi á umsvifamikilli klæðskerastofu í Bankastræti, Árna og Bjarna. Hann tók að auki þátt í íþróttastarfi. Hjá Helga fékk Jóhann fæði og klæði og það sem var enn dýrmætara, ósvikna vináttu heilsteypts manns.

Jóhann kynntist um þetta leyti fráskilinni konu, fimmtán árum eldri, Elínu Thorarensen, sem rak matsölu í Þingholtsstræti, og tóku þau upp samband sem varði í eitt ár, en mætti andófi og fordómum. Um samband þeirra skrifaði Elín löngu seinna bókina Angantýr sem óhætt er að segja að hafi hlotið þöggun í meira en hálfa öld (þar til hún var endurútgefin með skýringum haustið 2011). Jóhann „þoldi margar skapraunir mín vegna,“ segir Elín í bókinni. Þjóðfélagið gat fellt sig við að eldri karlar ættu ungar konur, en óviðeigandi þótti að ástarsamband væri á milli eldri konu og ungs manns.

„Þú getur ekki hugsað þjer hvernig alt mitt hugarlíf ólgar nú í hvirfilstormum milli skelfinga og gleði. Þú verður að vera mjer það sem ég vænti: að skilja líf mitt nú. Þess vænti eg altaf af þjer vinur og fóstbróðir,“ segir Jóhann í sendibréfi til Helga einhvern tíma veturinn 1915 til 1916, þegar hann dvelur næturlangt hjá Elínu í stað þess að koma heim til Helga. Vel má vera að Helgi hafi eins og fleiri vinir Jóhanns í Reykjavík haft áhyggjur af sambandi hans og Elínar, en það er ekki víst. Samtök virðast hafa verið meðal vina hans um að slíta því þegar Elín varð barnshafandi; Jóhann var studdur til ferðar norður til Akureyrar haustið 1916 til að ljúka þar gagnfræðaprófi og koma síðan til náms í Menntaskólanum. Elínu liggur mjög vel orð til Helga sem hún segir í bókinni að hafi verið „skjól hans og skjöldur, bæði fyrr og síðar“. Hún heimsótti Jóhann oft á Kárastíginn haustið 1916 og um veturinn. „Þetta sama haust fékk Angantýr (en svo nefndi Elín Jóhann) ný, falleg, föt, dökkblá. Helgi Þorkels gaf honum þau. Helgi gaf honum líka vetrarfrakka skömmu síðar. Hann kölluðum við Kuldabola,“ skrifar Elín. Hún segir líka frá ferðalagi Helga og Jóhanns austur í sveitir til fólksins á Galtafelli; drjúgan hluta ferðarinnar fóru þeir fótgangandi og hlýtur það að hafa verið mikið álag á Jóhann sem var með staurfót eftir berklasmit.

Varðveist hafa nokkur bréf Jóhanns til Helga og kveðskapur sem hann sendi honum. „Þú átt meiri ítök í hjarta mínu en aðrir vinir mínir,“ segir hann í bréfi frá Akureyri í desember 1916 og bætir við: „Í raun og veru finnur maður aldrei að fullu hverjir vinirnir eru fyr en þeir eru fjarlægir. Og þannig er það með alt þetta líf, – fjarlægðin er sjón vorri nauðsynleg.“

Eftir að Jóhann Jónsson hélt til bókmenntanáms í Þýskalandi sumarið 1921 átti hann ekki afturkvæmt til Íslands. Hann lést úr berklum í Leipzig 1932. Vinir hans úr menntaskóla héldu minningu hans á lofti, ekki síst Halldór Laxness. Úrval kvæða hans og ritgerða hefur tvívegis komið út á bók.

Helgi kvæntist Guðríði Sigurbjörnsdóttur, og eignuðust þau tvo syni, Einar sem varð læknir og Kjartan sem varð þekktur ferðamálafrömuður. Helgi var um langt árabil formaður Klæðskerasveinafélagsins Skjaldborgar og svo harður bolseviki að það hvarflaði aldrei að honum að verða meistari í sinni grein og komast þannig í stétt betri borgara.

 

Previous
Previous

Söguleg frímerki

Next
Next

Ástir og örlög ræðismanns