Söguleg frímerki

Markaði þáttaskil

Frímerki með mynd Jóns Sigurðssonar árið 1911.

Á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta árið 1911 voru gefin út frímerki með mynd af honum sem gerð var eftir lágmynd sem Einar Jónsson myndhöggvari hafði búið til. Hann var um þær mundir að leggja lokahönd á líkneski Jóns sem nú stendur á Austurvelli.  Voru frímerkin í sex mismunandi litum eftir verðgildi þeirra, en myndin af Jóni eins á þeim öllum. Þetta er hvít hliðarmynd af höfði hans (vangamynd), lítillega upphleypt og um hana hvítur hringur. Eru aðeins dregnar útlínur. Nafn Jóns er undir myndinni, kannski til þess að ekki fari á milli mála af hverjum myndin er. Þessi frímerki mega teljast hafa mikla sérstöðu í alþjóðlegu samhengi og frímerkjasögu án þess að menn hafi veitt því athygli. Skal nú farið fáum orðum um það.

Frímerki komu fyrst til sögu á Englandi 1840. Voru þau prýdd mynd af Viktoríu drottningu. Í sumum öðrum löndum létu póststjórnir í upphafi frímerkjaaldar duga að hafa á þeim myndir af ríkistáknum og tölum sem sýndu verðgildi merkjanna. Þannig var þetta til dæmis í Danmörku. Munu yfirvöldin þar beinlínis hafa talið það óvirðingu við konung að fólk væri að sleikja miða með mynd hans og líma á bréf og spjöld. Tilviljun olli því að mynd af Kristjáni Danakonungi IX kom fyrst á íslensku frímerki. Það var árið 1902. Danir, sem réðu íslenskum póstmálum, höfðu þá skipt um skoðun og fannst í lagi að andlitsmynd konungs væri notuð með þessum hætti. Tveimur árum seinna var sama myndin, gerð af Hans Tegner prófessor í Kaupmannahöfn, látin á dönsk frímerki.

Benedikt Sveinsson, ritstjóri og alþingismaður, virðist fyrstur hafa hreyft þeirri hugmynd að Íslendingar létu setja mynd af Jóni Sigurðssyni á frímerki. Hann birti grein í Fjallkonunni í apríl 1910 og sagði: „Að ári er aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, sem kunnugt er. Vilja Íslendingar þá minnast forvígismanns síns sem sæmilegast, sem skylt er. Væri vel til fallið, að gefin væri þá út íslensk frímerki með mynd Jóns Sigurðssonar. Slík frímerki mundu vekja allmikla athygli ekki síður utanlands en innan og bera nafn hans víðara en löng ævisaga eða ritgerðar.“

Fleiri tóku í sama streng og þegar Björn Jónsson, ráðherra Íslands, kvaddi Friðrik konung VIII, eftir vetrardvöl í Kaupmannahöfn í janúar 1911, spurði hann hvort konungur gæti fallist á að gefið yrði út frímerki til minningar um aldarafmæli Jóns Sigurðssonar þá um sumarið. Hann bætti við — líklega til að öruggara væri að tillagan fengi hljómgrunn — að Íslendingar vildu líka fá nýtt frímerki með mynd konungs sjálfs, en það hafði þá ekki verið gefið út. Friðrik konungur, sem var mikill Íslandsvinur, féllst á erindið og um vorið var hafist handa um verkið. Aðeins tókst þó að ljúka prentun einnar gerðar frímerkisins fyrir hátíðarhöldin á aldarafmæli Jóns 17. júní 1911. Hin frímerkin fimm komu svo rétt fyrir jól.

Það var skilningur konungs og danskra stjórnvalda að hér væri aðeins um minningarfrímerki að ræða sem notað yrði í stuttan tíma í kringum hátíðarhöldin eins og venja er um slík frímerki. Frímerkið með mynd Friðriks VIII, sem gert var um svipað leyti og tekið í notkun í febrúar 1912, var hins vegar almennt frímerki sem nota átti á póstsendingar innanlands og til útlanda næstu árin. Þetta atriði var áréttað í bréfi Jóns Krabbe, fulltrúa á skrifstofu Stjórnarráðs Íslands í Kaupmannahöfn, til ráðherra Íslands í lok nóvember 1911 í kjölfar þess að danska póststjórnin greindi frá því að ekki yrði hægt að prenta nýtt upplag af frímerkjum með mynd Jóns Sigurðssonar „fyrr en nánari umræður um það hefðu átt sér stað“. Um þetta sagði Jón Krabbe: „Skal það tekið fram, að eftir því sem ég hef fengið að vita munnlega hjá ráðherra innanríkismálanna áttu frímerki þau með mynd Jóns Sigurðssonar, er fyrrverandi ráðherra, Björn Jónsson, fékk leyfi konungs til að láta prenta, einungis að vera hátíðarfrímerki og hafði konungi skilizt svo, að eigi ætti að brúka þau að staðaldri.“

Hér á landi virðist það hins vegar hafa verið útbreidd skoðun að frímerkin ætti að nota sem almenn póstfrímerki í stað þeirra sem fyrir voru. Kom þetta m.a. fram í umræðum á Alþingi og í blaðaskrifum þar sem látin var í ljós óánægja með að verðgildi þeirra væri of lágt til að henta fyrir utanlandssendingar. Þó eru dæmi um að frímerkin hafi verið notuð á bréf til útlanda. Í hinni vönduðu frímerkjasögu Jóns Aðalsteins Jónssonar, Íslenzk frímerki í hundrað ár (Póst- og símamálastjórnin, Reykjavík 1977), sem hér er stuðst við, segir að þótt frímerki Jóns Sigurðssonar hafi ekki átt að nota að staðaldri, hafi farið svo, að þau voru notuð jafnhliða öðrum íslenskum frímerkjum, eftir því sem menn vildu og gátu meðan birgðir entust. Hafi raunin orðið sú, að frímerkin giltu til burðargjalds allt til ársloka 1921. Það er áratug lengur en ætlast var til.

Í bók Jóns er ekki fjallað um sérstöðu frímerkis Jóns Sigurðssonar sem nefnd var í upphafi. En haft var orð á þessu í aðsendri grein frá Lundúnum í einu blaði í Reykjavík, Birkibeinum, í mars 1912. Höfundurinn AM benti á að einsdæmi mætti heita í heiminum að gefin væru út frímerki „með mynd af manni sem ekki er eða var konungureða slíkur þjóðhöfðingi“. Athugun á frímerkjum Evrópulanda frá þessum tíma leiðir í ljós að þetta er rétt og hlýtur að gefa  þessari útgáfu aukið vægi í frímerkjasögunni, innanlands og utan. Nefna má að fyrstu frímerkin með mynd af Dana, sem ekki var konungur, komu til dæmis ekki fyrr en árið 1935. Á þeim var mynd af skáldinu Hans Christian Andersen. Fyrstur Norðmanna utan konungsfjölskyldunnar til að birtast á frímerki var leikskáldið Henrik Ibsen árið 1928. Það má því segja að frímerki með mynd af Jóni Sigurðssyni, embættislausum fræðimanni af alþýðuættum, árið 1911 hafi verið allnokkur dirfska hjá Íslendingum sem enn höfðu ekki stofnað fullvalda ríki. Nú þegar liðin eru rúm hundrað ár frá útgáfu þessara frímerkja er tími til kominn að hafa orð á því hve merkilegt þetta framtak var. Þetta eru söguleg frímerki.

 

Previous
Previous

Seildist í vasa Ólafs Thors

Next
Next

Skáldið og klæðskerinn