Hverjir eru „merkir Íslendingar“?

„Merkir Íslendingar”

Ríkjandi viðhorf og hefðir á Íslandi réðu mestu um það hverjir völdust á í frímerkin í flokknum „Merkir Íslendingar“ á árunum 1975 til 1998.

Haustið 1975 hleypti Póst- og símamálastjórnin af stokkunum nýrri frímerkjaröð undir heitinu „Merkir Íslendingar.“ Voru gefin út 28 frímerki fram til 1998, þegar útgáfunni lauk. Eru þá meðtalin fjögur Evrópufrímerki undir heitunum „Merkir menn“ og „Merkar konur“. Á þessum frímerkjum voru einkum skáld og listamenn, lærdómsmenn og menningarfrömuðir, alþingismenn úr sjálfstæðisbaráttu 19. aldar og kvenréttindaskörungar. Fjölmiðlar sögðu yfirleitt frá útgáfu frímerkjanna og stundum var fjallað um þau í frímerkjaþáttum blaðanna. Mæltist útgáfan jafnan vel fyrir og eru engin dæmi um að hreyft hafi verið aðfinnslum við val einstakra manna.

 Hér er ætlunin að reyna að ráða í hvaða sjónarmið réðu ferðinni þegar þessi frímerki voru gefin út. Áður en „Merkir Íslendingar“ hófu göngu sína höfðu myndir 23 Íslendinga birst á frímerkjum á þeirri rúmu öld sem liðin var síðan frímerkjaútgáfa hófst hér á landi. Í sex skipti var það í tilefni fæðingarafmælis viðkomandi, 100 ára (Jón Sigurðsson 1911, Matthías Jochumsson 1935, Einar Benediktsson 1965 og Friðrik Friðriksson 1968) eða 150 ára (Jónas Hallgrímsson 1957 og Grímur Thomsen 1970) og í tvö skipti vegna dánarafmælis, 700 ára (Snorri Sturluson 1941) og 400 ára (Jón Arason 1950). Oftar prýddu myndir einstaklinga frímerki vegna afmælis samtaka og stofnana eða sérstakra viðburða. Þannig var mynd af líkneski Leifs heppna á frímerki 1938 vegna Leifsdags í Bandaríkjunum og mynd af líkneski Þorfinns karlsefnis á frímerki 1939 vegna Heimssýningarinnar í New York. Þá voru myndir af biskupunum Þorláki helga og Jóni Vídalín á frímerki 1956 til að minnast þess að 800 ár voru frá stofnun Skálholtsstóls. Jón Þorkelsson var á frímerki 1959 vegna 200 ára afmælis Thorkelli-sjóðsins, Benedikt Sveinsson og Björn M. Ólsen 1961 vegna 50 ára afmælis Háskóla Íslands, Sigurður Guðmundsson málari 1963 vegna 100 ára afmælis Þjóðminjasafnsins, Tryggvi Gunnarsson 1971 vegna 100 ára afmælis Þjóðvinafélagsins, Stephan G. Stephensen 1975 vegna 100 ára afmælis vesturferða og Bertel Thorvaldsen sama ár vegna 100 ára afmælis Thorvaldsensfélagsins.

 Frjálsar hendur um val

 Sérstaða frímerkaflokksins „Merkir Íslendingar“ felst í því að póstmálastjórnin hafði alveg frjálsar hendur um val manna á frímerkin. Hún var ekki bundin af afmælum eða sérstökum tilefnum. Þó var það gömul regla að birta ekki myndir af lifandi mönnum og að jafnaði ekki af neinum fyrr en hundrað ár væru liðin frá fæðingu viðkomandi nema sérstaklega stæði á. Áhugavert er að skoða hvernig póstmálastjórnin nýtti sér þetta svigrúm.

Taflan hér að ofan sýnir hvaða einstaklingar völdust á frímerkin. Samtals eru 29 manns á frímerkjunum, einn á hverju nema 1979 þegar Jón Sigurðsson forseti og Ingibjörg Einarsdóttir kona hans eru saman á mynd. Myndir af körlum eru 20, en 9 af konum eða rétt rúmlega 30%. Áður en frímerkjaflokkurinn hóf göngu sína hafði engin nafngreind kona fengið mynd af sér á íslensku frímerki. Sex hinna frímerktu eru fæddir fyrir 1800, hinn elsti (Hallgrímur Pétursson) 1614. Sautján eru fæddir á 19. öld og flestir þeirra dánir ýmist í lok aldarinnar eða á 20. öld. Yngstur í hópnum (Ragnar Jónsson í Smára) lést 1984. Aðeins tveir (Steinn Steinarr og Ragnar) eru bæði fæddir og látnir á 20. öld. Ef litið er til starfa og verka eru 11 í hópnum skáld eða listamenn og 6 eru menningarfrömuðir eða lærdómsmenn. Þrír sátu á Alþingi á 19. öld og teljast til forystumanna í sjálfstæðisbaráttunni. Konurnar 9 eru nær allar kvenréttindaskörungar eða störfuðu öðru fremur að málefnum og hagsmunum kvenna. Undanskilja verður þó Ingibjörgu Einarsdóttur sem stjórnaði stóru rausnarheimili í Kaupmannahöfn og skapaði Jóni forseta mikilvæga umgjörð í stjórnmálastarfi hans.

Ekki fylgdi nein skýring eða greinargerð frímerkjaröðinni þegar hún byrjaði eða síðar. Í fréttatilkynningum Póst- og símamálastjórnarinnar var aðeins getið um ævi og feril þeirra sem völdust á frímerkin hverju sinni. En vafalaust var með „merkum Íslendingum“ átt við fólk sem á einhvern hátt hefði rutt brautir fyrir aðra, unnið að málefnum sem urðu til hagsbóta eða menningarauka eða komið við þjóðarsöguna á einhvern hátt sem eftir hafði verið tekið. Hvort allir þeir sem á frímerkin völdust uppfylla þetta skilyrði, eða hve vel þeir gera það, er annar handleggur og verður hér látið liggja á milli hluta.

Fjarvera sem vekur athygli

Til að meta valið á frímerkin er gagnlegt að huga að því hverja er ekki að finna á listanum og horfa þá á stéttir og starfsgreinar fremur en einstaka menn sem þar eru. Sérstaka athygli vekur að á frímerkjunum er ekki neina framtaksmenn úr atvinnulífinu að finna, svo sem úr útgerð, verslun, iðnaði eða landbúnaði, hvorki frá fyrri öldum né 19. og 20. öld. Eini atvinnurekandinn á þessum frímerkjum, Ragnar Jónsson í Smára, rak bókaútgáfu og smjörlíkisgerð, en hans er helst minnst sem menningarfrömuðar. Engir stjórnmálaforingjar sem komu fram á seinni hluta 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar, eru á frímerkjunum. Ekki heldur verkalýðsforingjar, félagsmálafrömuðir (nema úr röðum kvenna) eða kirkjunnar menn (nema þeir sem valdir eru fyrir skáldskap eða sjálfstæðisstjórnmál). Engir eru þar úr hópi nafnkunnra lækna, arkitekta, verkfræðinga eða vísindamanna (að Þorvaldi Thoroddsen náttúrufræðingi undanskildum).

 Og þegar horft er til tímabila hljóta menn að hnjóta um það hve frægir Íslendingar úr sögu fyrri alda eru fáir. Þó verður þar að hafa þann fyrirvara á að valið hefur markast af myndefni sem fyrir hendi var. Á seinni töflunni eru til umhugsunar nefndir nokkir svipmiklir einstaklingar úr röðum atvinnurekenda og stjórnmálaforingja á 19. og 20. öld sem koma í hugann í fljótu bragði og án sérstakrar rannsóknar, þegar fjarvera á listanum „Merkir Íslendingar“ er til umræðu, en enginn þeirra hefur fengið mynd af sér á frímerki, hvorki í þessari frímerkjaröð né af öðru tilefni. Aðeins eru nefndir menn sem voru látnir áður en röðin hóf göngu sína. Sú spurning vaknar af hverju „Merkir Íslendingar“ frímerkjaraðarinnar takmarkast við þann hóp sem áður er nefndur: skáld og listamenn, lærdómsmenn og menningarfrömuðir, alþingismenn úr sjálfstæðisbaráttu 19. aldar og kvenréttindaskörungar. Er þetta tilviljun eða býr hugsun að baki flokknum í heild?

Hverjir réðu ferðinni?

Í þessu sambandi er rétt að víkja að því hverjir það voru sem önnuðust val frímerkjaefnis á þessum tíma. Ákvörðunarvald um útgáfu frímerkja og val myndefnis var formlega í höndum póst- og símamálastjóra hverju sinni. Fram til 1986 gegndi Jón Skúlason embættinu, en 1986 tók Ólafur Tómasson við. Yfir póstmálasviði stofnunarinnar og þar með frímerkjaútgáfunni var Rafn Júlíusson póstmálafulltrúi. Póst- og símamálastjórnin (frá 1978 Póst- og símamálastofnun) heyrði undir samgönguráðuneytið og fyrir kom að ráðuneytið sendi stofnuninni ábendingar eða óskir um frímerkjaefni. Ávallt var orðið við slíku að því er best verður séð. Ekki er þó að sjá að ráðherra eða ráðuneytið hafi látið sig flokkinn „Merka Íslendinga“ varða sérstaklega, en það er þó ekki útilokað því dæmi er um íhlutun ráðherra um val einstaklings á frímerki í tilefni lýðveldishátíðarinnar 1994. Þau afskipti eru hvergi færð til bókar. Póst- og símamálastjórninni til ráðgjafar var frá 1972 sérstök nefnd skipuð af samgönguráðherra, frímerkjaútgáfunefnd. Kom hún jafnan saman mánaðarlega. Sátu í henni auk póst- og símamálastjóra og póstmálafulltrúa, einn fulltrúi sem ráðherra tilnefndi, fulltrúar Félags íslenskra frímerkjasafnara og síðar einnig Póstmannafélagsins og Félags íslenskra teiknara. Fundi nefndarinnar sátu gjarnan þeir hönnuðir sem mest unnu að gerð frímerkja hverju sinni.

 Á því tímabili sem hér er til umræðu sat Þröstur Magnússon teiknari alloft fundi nefndarinnar sem frímerkjahönnuður. Við athugun kemur í ljós að hann hefur teiknað 12 frímerkjanna. Hefur enginn annar teiknari dregið upp jafnmargar myndir í röðinni. Fyrsta frímerkið sem hann hannaði var af Ingibjörgu H. Bjarnason og kom út 1979. Ellefu frímerkjanna virðast hafa verið gerð með þeim hætti að ljósmyndir af fyrirmyndunum (eða af málverkum af þeim) voru sendar til frímerkjaprentsmiðjunnar, fyrst Perigoux í Frakklandi og síðar Harrison & Sons og BDT International á Englandi. Sáu óþekktir starfsmenn prentsmiðjanna síðan um útlitshönnunina. Í samtali við höfund þessarar greinar sagði Þröstur að hann hefði haft allnokkur afskipti af frímerkjaröðinni. Kveðst hann oft hafa átt frumkvæði að tillögum um einstaka menn, karla og konur, með því að leggja fram teikningar og hafi nefndin síðan valið og hafnað eftir atvikum. Staðfesta fundargerðir nefndarinnar þetta. En tillögur komu úr fleiri áttum og í júlí 1986 lá til dæmis fyrir nefndinni tillaga um frímerki með myndum skáldanna Davíðs Stefánssonar, Steins Steinars, Tómasar Guðmundssonar og Þórbergs Þórðarsonar. Valdi nefndin Davíð og Stein og komu þau frímerki út í febrúar 1988, hönnuð af Þórði Hall. Frímerki með myndum af Tómasi og Þórbergi hafa ekki komið út. Þröstur segist hafa leitað sér ráðgjafar ýmissa fróðra manna utan nefndarinnar áður en hann dró upp skissur sem hann lagði fyrir nefndina. Meðal þess sem honum hafi verið ofarlega í huga á þessum árum var að fjölga konum á frímerkjum, en það var einmitt í þessari frímerkjaröð sem fyrsta nafngreinda konan fékk mynd af sér á íslensku frímerki; Bríet Bjarnhéðinsdóttir 1978, þó ekki teiknuð af Þresti.

 Endurspegla þjóðfélagið

Þessar upplýsingar fela þó ekki í sér að val „Merkra Íslendinga“ hafi eingöngu endurspeglað einstaklingsbundinn smekk eða geðþótta frímerkjaútgáfunefndar og hönnuða hennar. Innan nefndarinnar var mikil þekking á íslenskri frímerkjasögu og frímerkjahefð og ákvarðanir hennar voru ávallt innan þess ramma og svigrúms sem sagan og hefðin mörkuðu. Frímerkin í röðinni hefðu enda ekki hlotið jákvæðar viðtökur eða hlutlausar í þjóðfélaginu, eins og raun ber vitni, ef þau hefðu með einhverjum hætti farið gegn viðteknum viðhorfum og söguskoðunum, stuðað eða ögrað. Sú spurning vaknar eðlilega hvort engum hafi þótt aðfinnsluvert að ekkert frímerkjanna „Merkir Íslendingar“ hélt á lofti minningu brautryðjenda í atvinnulífinu eða stjórnmálaforingja þjóðarinnar. Svo virðist ekki vera. Engar heimildir eru um opinberar umræður í þá veru og engin blaðaskrif finnast þar sem slíkar skoðanir eru viðraðar. Engin erindi virðast hafa borist póst- og símamálastjórninni eða útgáfunefndinni um frímerki með myndum atvinnurekenda. Aðeins tvö erindi finnast um stjórnmálamenn frá 20. öld og var þeim báðum einróma hafnað. Skýringin liggur vafalaust í þeim hugmyndaheimi sem einkenndi íslenskt þjóðfélag á þessum tíma og löngum fyrr; „andans menn“ voru metnir öðrum mönnum framar, og saga þjóðarinnar var í vitund fólks öðru fremur saga sjálfstæðisbaráttunnar. Um aukin réttindi kvenna ríkti í stórum dráttum samstaða á þessum tíma, hvað svo sem framkvæmdinni leið. Við bætist svo grundvallarregla frímerkjaútgáfu víðast hvar: frímerki eiga að stuðla að samheldni þjóða, styrkja sjálfsmynd þeirra og aldrei af ásetningi að vekja deilur eða gera fólki bilt við. Þó að það sé hvergi beinlínis á blað fest er myndmáli frímerkja hvarvetna ætlað að efla minningar og tilfinningar sem þjóðrækni og ættjarðarást sækja næringu sína í.

Nokkru áður en „Merkir Íslendingar“ hlupu af stokkunum gerði erlendur fræðimaður, Richard E. Tomasson, könnun á þjóðfélagslegum viðhorfum Íslendinga og birti niðurstöðurnar í ritgerð 1975 og á bók fimm árum síðar. Þær leiða í ljós að landsmenn mátu á þessum tíma bókmenningu, andans mennt, meira en verklega menningu og mest þá landa sína, lífs og liðna, sem voru skáld og menningarfrömuðir og stjórnmálaskörungar stórir í sniðum. Staða „andans manna“ meðal Íslendinga á þessum tíma er því ekki aðeins tilfinning heldur studd af rannsókn á viðhorfum fólks. Framtaksmenn atvinnulífsins, lífs og liðnir, nutu margir vinsælda og virðingar, en þeir voru að því er virðist á „annarri syllu“ í þjóðarvitundinni en andans menn og bókar.

Spurningu Tomassons um það hvaða Íslendingi, sem lífs var, viðmælendur dáðust mest að, var svarað með þessum nöfnum og í þessari röð: Kristján Eldjárn, Jóhannes Kjarval, Sigurbjörn Einarsson, Hannibal Valdimarsson, Geir Hallgrímsson, Gunnar Gunnarsson, Jóhann Hafstein, Ásmundur Sveinsson og Ásgeir Ásgeirsson. Þegar spurt var um látna Íslendinga var þeim raðað svo: Jón Sigurðsson, Bjarni Benediktsson, Ólafur Thors, Hallgrímur Pétursson, Davíð Stefánsson, Jónas Hallgrímsson, Sveinn Björnsson, Jónas Jónsson frá Hriflu, Matthías Jochumsson, Snorri Sturluson.

 Eðli sinnar vegna gat frímerkjaútgáfan hins vegar ekki tekið aðra stjórnmálaforingja undir sinn hatt en þá sem full samstaða var um. Lá þá beint við að velja leiðtoga úr sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld, enda var Íslandssagan sem kennd var í skólabókum og ritum fyrir almenning yfirleitt rakin sem viðreisnar- og réttindabarátta þjóðarinnar. Stjórnmálamenn heimastjórnar og fullveldis voru flestir enn of umdeildir til að ráðlegt væri að velja þá. Enn frekar gilti hið sama um stjórnmálamenn lýðveldistímans. Og lifandi menn voru ekki settir á frímerki fyrr en sú undantekning var gerð á hálfrar aldar afmæli lýðveldisins 1994 að þáverandi forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, hlotnaðist slík upphefð. Þegar þræðir eru dregnir saman liggur beinast við að álykta að frímerkjaröðin „Merkir Íslendingar“ sé góður fulltrúi fyrir ríkjandi viðhorf og hefðir á Íslandi á útgáfutímanum. Frá sjónarhóli okkar tíma virðist hún vafalaust of sértæk og þröng, en það er frekar til marks um breytt viðhorf í þjóðfélaginu en að útgáfan hafi ekki endurspeglað sinn tíma.

Birtist upphaflega í tímaritinu Ský 6. tbl. 2016.

Previous
Previous

„Eins og ást á milli karls og konu“

Next
Next

Riddari Jón Sigurðsson