Bílstjórar og fyrirmenn
Arreboe Clausen var einkabílstjóri forsætisráðherra Íslands á árunum 1936 til 1956; ekill Hermanns Jónassonar, Ólafs Thors, Stefáns Jóhanns Stefánssonar og Steingríms Steinþórssonar. Á sextugsafmæli hans árið 1952 birtist við hann blaðaviðtal. Samskipti bílstjórans við ráðherrana og aðra fyrirmenn bar á góma:
Enginn þessara manna hefur nokkurn tíma látið mig finna, að ég væri bílstjórinn, en þeir ráðherrarnir, og þess vegna lít ég á þá sem vini mína. Tignir erlendir gestir hafa stundum tekið eftir þessu á ferðalögum og spurt mig í laumi, hvort enginn stéttamunur væri á Íslandi, og hef ég ánægður svarað því neitandi.
Orð Clausens benda til þess að erlendum gestum ríkisstjórnarinnar hafi komið á óvart að ráðherra umgengist bílstjóra sinn sem jafningja. Slíku voru menn ekki vanir í löndum þar sem stéttaskipting var í föstum skorðum. Bílstjórum var ekki annað ætlað en að koma ökutækjum á milli staða og opna dyrnar fyrir virðingarmönnum. Á Íslandi þótti aftur á móti ekkert óeðlilegt við það að bílstjórar tækju þátt í samræðum um landsins gagn og nauðsynjar við opinbera gesti frá útlöndum. Arreboe Claussen ræddi við erlenda ráðherra eins og þeir væru gestir hans ekkert síður en ríkisstjórnarinnar. Hann var fyrirmannlegur á velli og í fasi, fróður og talaði tungumál grannþjóðanna reiprennandi. Fyrir mun hafa komið að hinir erlendu gestir færu mannavillt, héldu að Arreboe væri ráðherrann en ekki bílstjórinn, enda veittist honum stundum auðveldar að eiga orðastað við þá en sumum fyrirmanna þjóðarinnar, sem ekki gátu allir státað af mikilli tungumálakunnáttu.
Arreboe var ekki eini bílstjórinn sem leit á menn í virðulegum embættum sem jafningja sína, hvort sem þeir voru útlendingar eða samlandar. Halldór Laxness skrifar í Íslendingaspjalli (1967):
Biskup einn ágætur sagði frá því svo ég heyrði hve mjög hann hefði rekið í rogastans á Íslandi þegar hann settist við borð ásamt starfsbróður sínum íslenskum í veitíngahúsi uppí sveit, og inn kom ekill þeirra á eftir þeim, settist niður við borð biskupanna og fór að halda þeim uppá snakki sem þriðji kollega: íslendíngur lifir án nokkurs sérstaks tilverknaðar í því samfélagi heilags anda þar sem allir eru biskupar.
Halldór hafi áður orðið vitni að undrun útlendinga gagnvart skilningsleysi Íslendinga á rígskorðaðri stéttaskiptingu:
Ég varð í annað skifti af tilviljun áheyrsla er útlendur sendiherra rakti vandamál sem vagnekill á Íslandi getur vakið upp þegar raða skal eftir tign. Í veislu á Þíngvöllum, sem var haldin útlendum ráðherrum í opinberri heimsókn, þar sem alt gerist eftir prótókolli, uppgötvast altíeinu að undir borð er íslenskur vagnekill sestur einsog hann væri þar kominn í pensjónatið sitt. Þegar hinir útlendu tignarmenn fara að benda á þennan misgáníng með varfærnum orðum við þann embættismann sem var gestgjafi fyrir hönd ríkisins, þá kemur uppúr dúrnum að bílstjórinn er einmitt holdlegur bróðir hins hávirðulega gestgjafa sjálfs - og sennilega miklu tekjuhærri. Enda hafði einginn frammað þeim degi frætt íslendínginn á því að vagneklar væru lægri menn en ráðherrar. Einstætt í heiminum, bætti sendiherrann við, - og þó allra óhugsanlegast í Rússlandi.
Halldóri Laxness, var þetta efni hugleikið. Honum varð tíðrætt um hinn „séríslenska lýðræðisskilning“ og „andlega jafnaðarstefnu“:
Eftilvill liggur samanlagður styrkur svo fámennra eyarskeggja einmitt í þessum púnkti; og í þeim punkti eru allir íslendíngar sammála: þar hætta öll stjórnmál. Sérhver íslendíngur er jafngóður fyrir hvaða íslendíngi öðrum sem er, einsog allar sálir eru jafngóðar fyrir guði samkvæmt kristindóminum.
En Halldór sá líka veikleikann í jafnaðaranda Íslendinga. Það er ekki tilviljun að kaflinn sem um þetta fjallar í Íslendingaspjalli heitir „Flatneskja á Íslandi“. Hann nefndi viðkvæmni Íslendinga fyrir afrekum annarra:
Það er íslensku þjóðfélagi mótstætt, möo antisósíalt athæfi, ef einhver skarar frammúr öðrum í orða eða verki. Fyrir slíkum manni verða allir að gæta sín. Jafnvægi þessa litla samfélags getur raskast ef einhver nær betri árangri en alment gerist á einhverju sviði.
Og Halldór bætti við:
… ef nokkuð er sem íslendíngar upp og ofan ekki þola, þá er það gagnrýni á verkum þeirra, hvortheldur um er að ræða iðnfyrirtæki eða einstaklínga, svo heita má að ekki megi finna í heyranda hljóði að handaverkum nokkurs manns nema helst í málaralist; og kannski að bókum ef þær ná þolanlegum gæðaflokki, en alls ekki vondum bókum.
Þetta er brot úr bók minni Nýja Ísland. Listin að týna sjálfum sér sem út kom haustið 2008.