Fróðleiksmoli: Íslenskir feður yfir áttrætt

Allir þessir öldruðu feður sem hér eru nefndir eru nú látnir. Grafið var unnið á Morgunblaðinu.

Vitað er með vissu um 22 íslenska feður sem eignuðust börn á aldrinum frá 70 ára til 82 ára, þar af eru tíu feður sem voru 75 ára eða eldri. Þetta kemur fram í samantekt sem Jónas Ragnarsson vann fyrir Morgunblaðið fyrir fimm árum, en hann heldur úti síðunni Langlífi á Facebook.

Sumir hinna öldruðu feðra eignuðust fleiri en eitt barn eftir að 70 ára aldri var náð þannig að heildarfjöldi barna þeirra er 48. Þriðji hver faðir lifði fram yfir fermingu barns síns. Mæðurnar voru mun yngri en feðurnir og munaði frá 25 árum til 51 árs. Allir karlarnir áttu börn með fleiri en einni konu, frá tveimur til sex, allt frá 2 börnum upp í 32 börn. Flestir höfðu eignast sín fyrstu börn um tvítugt og stóðu því í barneignum í hálfa öld. Dæmi er um að faðir hafi átt börn með 59 ára millibili, það fyrsta þegar hann var 19 ára og það síðasta þegar hann var 78 ára. Mörg þeirra barna sem eru dáin náðu háum aldri.

Átti barn 82 ára gamall

Axel Clausen heildsali í Reykjavík vermir toppsætið á listanum. Hann var fæddur 1888 og dó 1985, 96 ára. Axel átti 21 barn, það fyrsta þegar hann var 25 ára. Með Grétu Ingvarsdóttur eignaðist Axel fjögur börn, það síðasta þegar hann var rúmlega 82 ára.

Tryggvi Gunnarsson bankastjóri í Reykjavík var fæddur 1835 og dó 1917, 82 ára. Hann átti fjögur börn, það fyrsta þegar hann var 55 ára. Með Helgu Jónasdóttur eignaðist hann þrjár dætur. Sú síðasta fæddist 27 dögum eftir að Tryggvi dó.

Hans Jakob Beck hreppstjóri í Reyðarfirði var fæddur 1838 og dó 1920, 82 ára. Hann átti 23 börn, það fyrsta þegar hann var 25 ára. Með Mekkín Jónsdóttur eignaðist Hans tíu börn, það síðasta þegar hann var tæplega 82 ára.

Björn Tryggvason, sem var aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, er sá á listanum sem er næstur okkur í tíma, fæddur 1924. Hann var rúmlega 75 ára þegar yngsta barn hans fæddist.

Byggt er á grein minni í Morgunblaðinu 25. október 2018.











Previous
Previous

Hugsa sér! Kona kaupir þingtíðindi

Next
Next

Ljósmyndatíska fyrir rúmum hundrað árum