Bækur æxlast af bókum

Orkneyinga saga er hugsanlega rituð undir lok 12. aldar af Páli Jónssyni biskupi í Skálholti.

Bækur æxlast af bókum, sögur af sögum, setningar af setningum. Þessi sannindi eiga við að fornu og nýju. Gaman getur verið að bera saman orðalag og hugmyndir í einstökum verkum. Hér er dæmi um svipað orðalag og hugsun í þremur gömlum sögum. Hvort þetta rís undir því að heita rittengsl skal ég ekki segja:

Í Orkneyinga sögu segir um víkinginn Svein Ásleifarson: „... er það mál manna að hann hafi mestur maður verið fyrir sér í Vesturlöndum bæði að fornu og nýju þeirra manna, er eigi höfðu meira tignarnafn en hann.“

 Í Jómsvíkinga sögu segir um annan víking: „Svo er frá sagt um Áka Tókason að engi maður þótti þvílíkur í Danaveldi sem hann í þann tíma, sá er eigi bæri tignarnafn.“

 Í Haralds sögu gráfeldar í Heimskringlu segir um víkinginn Sköglar-Tósta: „Tósti hét maður í Svíþjóð er einn var ríkastur og göfgastur í því landi, þeirra er eigi bæru tignarnafn. Hann var hinn mesti hermaður og var löngum í hernaði.“

Um höfunda þessara texta er það að segja að Páll Jónsson biskup kemur sterklega til álita sem höfundur Orkneyinga sögu. Hún er rituð undir lok 12. aldar. Jómsvíkinga saga er jafnan talin frá því um 1200 en höfund hafa menn ekki treyst sér til að nefna. Haralds saga gráfeldar er í Heimskringlu sem Snorri Sturluson er jafnan skrifaður fyrir, þótt um það megi efast.

 Stundum virðast manni rittengsl fornra rita augljós. Og stundum má beinlínis sanna þau. En í öðrum dæmum og oftar er kannski frekar um að ræða hugsanatengsl eða orðalagslíkingar sem eiga rætur að rekja í sameiginlegan orðaforða og hugmyndaheim.

Sigríður stórráða og Ólafur konungur Tryggvason.

Dettur í þessu sambandi í hug líkindi með kinnhestum Sigríðar stórráðu í Heimskringlu og Hallgerðar langbrókar í Njálu. Kinnhestarnir hafa örlagaríkar afleiðingar fyrir Ólaf konung Tryggvason og Gunnar á Hlíðarenda. Er sennilegt er að þarna séu tengsl á milli, kannski sami höfundur að verki? Það má velta því fyrir sér.

Og loks þetta: „Þá var svá lítill vápnaburðr, at ein stálhúfa var þá á alþingi, ok reið drjúgum hverr bóndi til þings, er þá var á íslandi,“ segir Kristni saga um árið sem Hafliði Másson var særður á Alþingi (1120).

Hugsunin þarna minnir svolítið á klausuna fornu um Fróðafrið í Snorra-Eddu: „Þá var og engi þjófur eða ránsmaður, svá að gullhringur einn lá á Jalangursheiði lengi.“


















Previous
Previous

Þreifað á Adolf Hitler í Berlín

Next
Next

Hugsa sér! Kona kaupir þingtíðindi