Þreifað á Adolf Hitler í Berlín
Frægur er í sögunni einkafundur Gunnars Gunnarssonar rithöfundar með Adolf Hitler vorið 1940. Hefur margt verið um hann rætt og ritað og enn mun ekki allt komið fram sem snertir erindi Gunnars við Foringjann og samtal þeirra.
En Gunnar Gunnarsson er ekki eini Íslendingurinn sem átti orðastað við Hitler. Baldur Jónsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, greindi frá því í grein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum að Helgi P. Briem, sem lengi var sendifulltrúi og sendiherra í utanríkisþjónustunni, hafi á sínum tíma sagt sér frá því að hann hefði rætt við Hitler í sendiráðsboði í Berlín á fjórða áratugnum. Helgi var þá fulltrúi Íslands (attaché) í danska sendiráðinu í Berlín. Frásögn Baldurs af þessu atviki er öll hin skoplegasta:
Nasistar voru þá alls ráðandi en áttu marga hatursmenn. Sumir sögðu að Hitler væri svo lífhræddur að hann væri jafnan í skotheldu vesti innan klæða, en ekki vissu menn sönnur á því. Svo bar við einu sinni að Helgi var gestur í samkvæmi þar sem Foringinn var viðstaddur. Þá blossaði forvitnin upp í Helga. Hann fór að fikra sig í áttina að höfðingjanum og hugsaði sér að kanna þetta mál. Að lokum var hann kominn svo nærri honum að þeir fóru að skiptast á orðum, og lá vel á Hitler. Helgi nýtti sér það og gerði sér upp hundakæti. Hann lét sem hann færi úr jafnvægi og rakst þá „alveg óvart“ utan í Foringjann, en notaði tækifærið um leið og slæmdi annarri hendinni aftan undir herðarnar á karli til þess að geta þreifað á því hvernig hann væri inn við beinið.
Baldur lýkur svo greininni með þessum orðum:
Mér þótti svo merkilegt að Helgi skyldi komast upp með þetta, að ég get ekki munað lengur hvers hann varð vísari!