Tíu áhrifamestu menn aldarinnar sem leið
Sumarið 1965 spurði Vikan tíu þjóðkunna menn (sem ekki voru nafngreindir) hvaða tíu menn þeir teldu verðskulda „þann heiður að vera kallaðir menn aldarinnar framar öðrum.“ Þá var auðvitað verið að tala um öldina sem leið, 20. öld. Velja átti menn sem „með orðum sínum eða gjörðum hafa markað tímamót og haft afgerandi áhrif á lífsskilyrði, afkomu og jafnvel hugsunarhátt alls almennings í landinu,“ eins og það var orðað.
Niðurstaðan varð þessi (í stafrófsröð, því ekki kom fram hvernig atkvæði skiptust):
Alexander Jóhannesson, háskólarektor
Bríet Bjarnhéðinsdóttir, kvenréttindafrömuður
Einar Benediktsson, skáld og fjármálamaður
séra Friðrik Friðriksson, stofnandi KFUM
Halldór Laxness, skáld
Hannes Hafstein, ráðherra og skáld
Jónas Jónsson frá Hriflu, ráðherra
Ólafur Friðriksson, ritstjóri og verkalýðsforingi
Ólafur Thors, forsætisráðherra
Thor Jensen, athafnamaður
Næstum 60 ár eru liðin síðan þetta mat fór fram. Mér finnst ólíklegt að allir þessir tíu næðu inn á sambærilegan lista núna. Og reyndar alls ekki víst að fólk kannist almennt við þá alla.