„King of SÍS“
Á aðventunni árið 1970 barst viðskiptamönnum Sambands íslenskra samvinnufélaga utanlands óvanaleg sending með árlegu jólakorti frá forstjóra fyrirtækisins á Íslandi, Erlendi Einarssyni. Þetta var prentaður áttblöðungur með ættartölu hans og teikningu af ættartré, þar sem rakinn var skyldleiki hans við helstu þjóðhöfðingja í Evrópu sem þá voru, Elísabetu Bretadrottningu, Friðrik Danakonung, Ólaf Noregskonung og Konstantín Grikkjakonung. Kom fram að sameiginlegir forfeður þeirra væru Haraldur hárfagri konungur í Noregi og Rögnvaldur Eysteinsson jarl á Mæri sem báðir voru uppi á 9. öld. Kvað Erlendur sig í 33. ættlið frá Haraldi og 34. frá Rögnvaldi. Elísabetu drottningu Bretlands sagði hann í 35. ættlið frá Rögnvaldi jarli og Ólaf Noregskonung í 32. ættlið talið frá Haraldi hárfagra.
Ekki er kunnugt um hvernig viðtakendur brugðust við sendingunni. Einhverjir þeirra hafa vafalaust brosað góðlátlega, aðrir kannski lyft augabrúnum í forundran. Og svo má vera að enn aðrir hafi dáðst að ættgöfgi forstjóra stærsta fyrirtækis á Íslandi.
Af ástæðum sem ekki eru kunnar var ættartalan ekki send neinum viðskiptamönnum Sambandsins á Íslandi. Hún barst þó með einhverjum hætti inn á ritstjórn Alþýðublaðsins sem um miðjan janúar birti mynd af ættartrénu á forsíðu. Undir fyrirsögninni „Svolítil ættgöfgi hjá SÍS“ var háðsleg frétt sem þannig byrjaði: „Elisabet 2. Bretadrottning, Friðrik 9. Danakonungur, Ólafur 5. Noregskonungur, Konstantin 2. Grikkjakonungur og Erlendur Einarsson, forstjóri SÍS, allt eru þetta ættmenni. Og víst er, að ekki eru þeir margir Íslendingarnir, sem geta hreykt sér af slíkum ættingjum.“
Þetta var efni sem Þjóðviljinn gat ekki leitt hjá sér, enda hafði blaðið um árabil haldið því fram að forystumenn Sambandsins lifðu í sínum eigin heimi og hefðu gleymt hugsjónum samvinnuhreyfingarinnar. Magnús Kjartansson ritstjóri blaðsins benti á að þarna væri ekki verið að rekja rætur Sambandsins til fátækra bænda heldur tengja forstjórann við konungaættir. „Svona gersamlega hefur forusta Sambands íslenskra samvinnufélaga slitið ættartengsl sín við þá félagshyggjumenn sem stofnuðu fyrsta kaupfélagið í Þingeyjarsýslu fyrir tæpri öld. Og hvað gerist næst? Verður það ef til vill lokahugsjón Sambandsins að berjast fyrir því að konungdæmi verði tekið upp á Íslandi?“
Háðblaðið Spegillinn birti nokkrum dögum síðar mynd af ættartrénu undir fyrirsögninni „Askur Erlends“ og hafði bætt titlinum „King of SÍS“ við nafn hans.
Erlendur Einarsson brást ekki við þessum blaðaskrifum sem urðu bæjarslúðrinu ríkuleg næring. Margir vildu komast yfir áttblöðunginn með ættartölunni. Einn auglýsti í Vísi og sagðist vilja kaupa eintak strax. „Gott verð í boði.“ Ekki er orð um málið í ævisögu Erlendar sem kom út tuttugu árum síðar. Þar er ekkert minnst á ættir hans langt aftur í aldir eða skyldleika við erlenda þjóðhöfðingja.
Aftur á móti kemur þar fram að Erlendur var af alþýðufólki kominn, naut lítillar skólagöngu en hófst til forystu og metorða innan samvinnuhreyfingarinnar fyrir dugnað og framtakssemi.
Erlendur hafði látið þess getið í skýringarorðum sem fylgdu ættartölunni að hún væri frekar til gamans gerð en til að sanna skyldleika við konunga og drottningar meðal samtíðarmanna hans. En það var þó einmitt sú tenging sem mesta athygli hafði vakið, þessi u-beygja sem tekin var þegar búið var að þræða tugi ættliða aftur í tímann. „Royal Line“ kallaði Erlendur konungaröðina, en sínar eigin ættir frá Haraldi hárfagra og Rögnvaldi jarli nefndi hann „First Iceland Line“ og „Second Iceland Line“. Mörgum fannst að þarna væri forstjórinn að upphefja sig utan landsteinanna meðal manna sem litla þekkingu hefðu á ættfræði. Af ættartré hans á forsíðu ritsins, þar sem aðeins er að finna nafn hans og Snorra Sturlusonar og síðan 8 erlendra þjóðhöfðingja, lífs og liðinna, gátu ókunnugir hæglega dregið þá ályktun að Erlendur væri íslenskur aðalsmaður. Fyrirvara hans í inngangsorðunum, um að ættartalan og hið konunglega ættartré væru til gamans gerð, mátti skilja sem hógværð, sem jafnan er talin einkenni sannra höfðingja og tignarmanna. Og öllu gamni fylgir nokkur alvara.
(Guðmundur Magnússon: Íslensku ættarveldin. Frá Oddaverjum til Engeyinga, Reykjavík 2012, 15-18).