Örlátur bankastjóri

Ludvig Kaaber bankastjóri Landsbankans og áður annar aðaleigenda heildverslunarinnar Ó. Johnson og Kaaber hf.

Í ævisögu Guðmundar G. Hagalíns rithöfundar Hrævareldar og himinljómi er fjallað um tímann þegar hann var um tvítugt og var vð nám í Menntaskólanum í Reykjavík á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri. Hagalín gekk í Guðspekifélagið og varð þá málkunnugur Ludvig Kaaber bankastjóra Landsbankans, annáluðum sómamanni. Hann skrifar:

Dag einn, vorið 1918, gekk ég niður Bankastræti í norðan hvassviðri. Ég var frakkalaus. því að ennþá hafði ég ekki eignast aðra yfirhöfn en regnkápu. Á horni Lækjargötu og Austurstrætis mætti ég Ludvig Kaaber og tók ofan fyrir honum. Hann virti mig fyrir sér og kallaði síðan á mig, 'Það er kalt að vera frakkalaus í dag. Ég hef aldrei séð yður í frakka.' Mér vafðist tunga um tönn og Kaaber hélt áfram: 'Komið þér með mér.' Hann fór síðan inn í verslun Haraldar Árnasonar, og ég fylgdi honum eftir. Hann lét sýna okkur yfirhafnir, valdi þykkan, brúnan frakka úr ensku ullarefni. Ég mældi mig í frakkann. Hann var hæfilegur, bæði að sídd og vídd. Kaaber sagðii eitthvað við búðarmanninn, sem kinkaði kolli og jánkaði. Svo var Kaaber þotinn út. Ég stóð eins og viðundur, en síðan flýtti ég mér á eftir Kaaber, En ég hafði dokað við of lengi - ég náði ekki í hann, kunni ekki við að hlaupa í sprettinum á eftir honum. Næsta sunnudag fór ég heim til hans og þakkaði honum gjöfina. Hann tók mér sérlega vel, lét bera mér góðgerðir og ræddi lengi við mig. Þá er ég kvaddi hann, sagði hann og brosti hýrt. Ef svo stæði á, að ég gæti gert yður einhvern greiða, þá skuluð þér leita til mín.

Guðmundur G. Hagalín sem ungur maður. Hann átti eftir að verða einn vinsælasti rithöfundur Íslendinga á 20. öld.

Góð fyrirmynd fyrir bankastjóra nútímans, hann Ludvig Kaaber. Full ástæða til að gera sögu hans betri skil við tækifæri.


































Previous
Previous

„King of SÍS“

Next
Next

Gamanmál Kristjáns X. konungs á Þingvöllum