Gamanmál Kristjáns X. konungs á Þingvöllum

Kristján X. konungur ræðir við Odd sterka af Skaganum á Alþingishátíðinni á Þingvöllum sumarið 1930. Bros konungs þótti tíðindum sæta.

 Kristján X. konungur Danmerkur og Íslands sótti Alþingishátíðina á Þingvöllum sumarið 1930 eins og áður hefur komið fram í pistli á þessari síðu. Gerði hann það líklega fremur af skyldurækni en áhuga. Þó gerðist það á hátíðinni, sem þótti sögulegt þegar hinn yfirlætisfulli og alvörugefni konungur átti í hlut, að bros læddist fram á varir hans og náðist á filmu.

Þetta gerðist þegar konungur hitti þann fræga mann, Odd sterka af Skaganum, á rölti sínu um hátíðarsvæðið. Var Oddur hinn vígalegasti, skrýddur fornmannabúningi og hélt á spjóti, en þó góðlegur á svip, enda manna ljúfastur. Tóku þeir konungur og Oddur tal saman og þyrptist mannfjöldi að þeim eins og myndir sýnir. Mun konungur hafi rétt Oddi tíu króna seðil til merkis um að hann hefði haft ánægju af þessum stuttu kynnum þeirra.

Hvað þeim fór á milli er ekki skráð en Pétur Pétursson þulur fullyrti seinna að Oddur hefði glaðst mjög yfir vinalegu viðmóti konungs. Hafi Oddur, sem lengi hafði tekið þátt í ýmsum samkomum og upphlaupum bolsa í Reykjavík, látið þau orð falla síðar þegar hann var beðinn um að hrópa „Niður með kónginn!“ að það gæti hann ekki. „Þegar konungurinn hefur gefið manni 10 krónur getur maður ekki hrópað eins og bolséviki: Niður með kónginn.“

Leikarar í fornmannabúningum á Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Meðal dagskrárliða á hátíðinni var leikþáttur sem hinir miklu gáfumenn, prófessorarnir Sigurður Nordal og Ólafur Lárusson, höfðu samið um kjör lögsögumanns á Alþingi til forna. Höfðu nokkrir kunnustu leikarar þjóðarinnar verið dubbaðir upp í skrautlega fornmannabúninga ekki ósvipaða þeim sem Oddur sterki klæddist. Fór sýningin fram á Lögbergi fyrir framan áhorfendapall hinna tignu gesta.

Haraldur Björnsson leikari, sem stýrði sýningunni, segir frá því í endurminningum sínum Sá svarti senuþjófur (1963) að einkennilegt atvik hafi orðið þegar sýningin var í fullum gangi. Hafi Kristján konungur, sem sýnilega leiddist sýningin og skildi ekki hvað fram fór, skyndilega rétt fram hönd sína og boðið einum leikaranna sígarettu úr gullnu veski sínu. „Ég tók eftir þessu,“ segir Haraldur í endurminningunum, „og varð að taka á öllu sem ég átti til að skella ekki upp úr.“

Eftir sýninguna hitti Haraldur leikarann sem í hlut átti og spurði hann hvernig honum hefði orðið við þegar konungurinn bauð honum vindlinginn. „Ég lést ekki sjá það,“ svaraði hann.

En góði maður, svona getur maður ekki komið fram við konung sinn. - Hvað átti ég þá að gera? - Gera? Það var auðvitað ekki nema eitt að gera. Þú áttir vitanlega að reykja fjandans sígarettuna. - Ertu genginn af göflunum? Átti ég að gera þetta að paródíu?

Kristján konungur hafði gaman af öllu saman. Haraldur segir að honum hafi sjálfsagt leiðst og orðið að gera eitthvað sér til skemmtunar.


































Previous
Previous

Örlátur bankastjóri

Next
Next

„Önnur gerist nú atferð ungra manna“