Íslenskur bóndi meðal jafningja í konungsgarði

Eiríkur á Brúnum. Þessa ljósmynd færði hann Kristjáni IX. Danakonungi, sonum hans, Georg Grikkjakonungi og fleira fyrirfólki að gjöf í Kaupmannahöfn 1876.

Eiríkur bóndi Ólafsson á Brúnum (1823-1900) hitti Kristján konung IX. og son hans, Valdimar prins, á Þingvöllum á þjóðhátíðinni 1874. Rauður gæðingur Eiríks vakti áhuga prinsins, sem var aðeins fjórtán ára gamall, og falaðist hann eftir honum. Eiríkur vildi gefa honum hestinn, en Kristján konungur skarst í leikinn, og kvað upp úr um að gjald skyldi koma fyrir. Varð það og niðurstaðan.

Nú á dögum er Eiríkur helst þekktur sem söguhetjan í Paradísarheimt Halldórs Laxness, Steinar bóndi Steinsson að Hlíð undir Steinahlíðum. Í skáldsögunni hittir hann kónginn á Þingvöllum og gefur honum gæðing sinn, Krapa. Þegar heim kemur segir húsfreyja við bónda: „Það var sannarlega gott að þú fórst ekki að taka penínga af kónginum gæskur.“

Söguna um samskipti Eiríks á Brúnum við Danakonung og prinsinn hefur stundum borið á góma í skrafi mínu um sögu og sagnfræði við vini og kunningja. Nær undantekningarlaust er ég leiðréttur þegar ég orða það svo að Eiríkur hafi selt hestinn eða konungur hafi greitt fyrir hann. Nei, hann gaf hestinn! segja menn. Þetta hefur orðið mér umhugsunarefni. Skáldskapurinn er greinilega sterkari en sagnfræðin. Mætti rekja mörg fleiri dæmi um það, m.a. áhrif Íslandsklukku Halldórs Laxness á viðhorf okkar til Íslandssögunnar.

Munurinn á sagnaskáldi og sagnfræðingi er sá að hann sem ég nefnd fyr lýgur vísvitandi að gamni sínu, sagnfræðingurinn lýgur í einfeldni sinni og ímyndar sér að hann sé að segja satt,

lætur Laxness Jón Prímus segja í Kristnihaldi undir Jökli.

Tveimur árum eftir þjóðhátíðina, árið 1876, var Eiríkur bóndi staddur í Kaupmannahöfn og flaug þá í hug að heimsækja prinsinn. Hann var sannfærður um að prinsinum „mundi mislíka, ef ég fyndi hann ekki, ef hann frétti að ég hefði verið í Höfn, svo að ég dirfðist að senda honum nokkrar línur“ , eins og hann kemst að orði í Lítilli ferðasögu sinni, einstaklega skemmtilegu smáriti.

Og viti menn! Eiríki var boðið til konungshallarinnar, þar sem hann hitti Kristján konung og Valdimar prins og bræður hans, Georg Grikkjakonung og fleira fyrirfólk. Venju samkvæmt gaf kóngafólkið gesti sínum myndir af sér að skilnaði. Og þar sem konungsfjölskyldan átti engar myndir af Eiríki bónda þótti honum sjálfsagt að endurgjalda gjafirnar á sama hátt. Eiríki hefur fundist að hann væri staddur meðal jafningja, enda kemur fram í ferðasögunni að hann gat rakið ættir sínar til Haraldar hilditannar Danakonungs sem uppi var á sjöundu og áttundu öld. Er hermt að hann hafi talið sig betur ættaðan en konunginn.

Ég fjalla talsvert um „andlega jafnaðarstefnu“ okkar Íslendinga í bók minni Nýja Ísland. Listin að týna sjálfum sér (2008). Um ferð Eiríks á Brúnum til Kaupmannahafnar og í konungsgarð mæli ég með bók Erik Sønderholm Kongsfærd og bonderejse. En islandsk bonde i København, 1876 sem út kom 1974.





Previous
Previous

Tvö Maríulíkneski eftir Júlíus Schou

Next
Next

„Þjer gætuð orðið milljóner!“