„Þjer gætuð orðið milljóner!“

Jóhann skáld Jónsson (1896-1932)

Jóhann Jónsson (1896-1932), skáldið sem orti Söknuð, var í Gagnfræðaskólanum á Akureyri (nú Menntaskólanum) veturinn 1916 til 1917. Mér var á sínum tíma sagt að hann hefði verið sendur norður sem liður í aðskilnaði þeirra Elínar Elísabetar Jónsdóttur Thorarensen, matseljunnar í Reykjavík sem hann var svo hrifinn af.

Talsverður aldursmunur var á þeim, 15 ár (Elín fædd 1881, Jóhann 1896), hún fráskilin með tvö barna sinna í fóstri, og má heita að það hafi verið almenn skoðun vina þeirra og kunningja og fjölskyldu að þau þyrftu að skiljast að. Okkar kann að finnast þetta viðhorf lýsa kaldlyndi og hleypidómum, og má það vel vera, en þá var öldin önnur.

Elín hélt til Kaupmannahafnar haustið 1916, barnshafandi að talið er, en Jóhann fór norður. Þau hittust aldrei aftur en skrifuðust á um veturinn. Í óbirtu bréfi segir Jóhann Elínu frá skemmtun í Gagnfræðaskólanum um jólin 1916.

Hinn 4ða í jólum héldum við skólasveinar hátíð, skólameistaranum og brytanum, og var þangað boðið mörgu fólki úr bænum. Þangað buðum við þjóðskáldinu okkar, Matthíasi gamla. Hlotnaðist mér sú virðing að standa fyrstum upp og bjóða hann velkominn í hópinn. Ég las þvínæst upp lofsönginn hans og síðan hina snilldarlegu þýðingu hans á kvæðinu ‚Ákvæðaskáldið‘ eftir Uhland. Svo bað ég menn að standa upp, gamla manninum til virðingar og hrópa fyrir honum 9-falt húrra. Var það gjört ósvikið. Þá stóð gamli maðurinn upp og þakkaði mér með tárin í augunum fyrir upplesturinn. Ef til vill er það bezta jólagjöfin, sem ég nokkurn tíma fæ: tár gamla skáldsins. Síðan hélt hann langa og ofurfagra ræðu, enginn, sem ekki þekkir hann, getur haft hugmynd um allan þann geysikraft og allt það æskufjör, sem ólgar ennþá í orðum og persónu þessa áttræða öldungs. Síðan hélt skólameistari honum snjalla ræðu, og hefi ég aldrei heyrt honum segjast betur en þá, en þeir eru vinir miklir, karlarnir. Síðan var drukkið ennþá og þá var dansað og hamast. Matthías gamli fór heim snemma um kvöldið, hann er nú hættur að þola mikla áreynslu og verður að lifa mjög varasömu lífi. Þá var komið aftur að borðum er liðið var á nóttina, var þar öllu daufara en áður hafði verið meðan skáldið var hjá okkur.

Matthías sá sem þarna er nefndur er auðvitað Jochumsson, þjóðskáldið góða. Skólameistari á Akureyri var á þessum tíma Stefán Stefánsson (faðir Valtýs ritstjóra Morgunblaðsins og Huldu skólastýru).

Jóhann segir í bréfi til vinar síns og velgjörðarmanns, Helga Þorkelssonar klæðskera, í júní 1917 að hann heimsæki Matthías skáld vikulega og að þeir séu orðnir mestu vinir.

Hann seigir að eg sje besti upplesari landsins o.sfrv., ekki vantar ástúðina!

segir Jóhann. Hann kveðst hafa lesið upp fyrir Matthías sum kvæða hans, m.a. Gretti og Glám. Hafi Matthías verið svo hrifinn að hann hafi sagt:

Ef þjer lærðuð að lesa upp, þá gætuð þjer orðið milljóner, hum, hum ..!

Jóhann gleðst að vonum yfir þessu hrósi þjóðskáldsins og segir í bréfinu:

Mér þókti karl seigja mikið en sá þóktist nú vita hvað hann söng.

Það voru guðspekingar undir forystu Ludvigs Kaaber bankastjóra í Reykjavík sem styrktu Jóhann til náms og dvalar á Akureyri. Sjálfur var Jóhann örsnauður, kominn af bláfátæku fólki í Ólafsvík. En hann hafði eitthvert aðdráttarafl sem leiddi til þess að hann varð vinamargur. Í hópi þeirra sem hann kynntist á Akureyri veturinn 1916 til 1917 var kvenréttindafrömuðurinn og guðspekingurinn Aðalbjörg Sigurðardóttir sem var tíu árum eldri en hann. Urðu þau ástfangin eins og Pétur Pétursson prófessor hefur rakið í forvitnilegri ritgerð í Ritröð Guðfræðistofnunar. Ekki varð samband þeirra þó langt og giftist Aðalbjörg Haraldi Níelssyni guðfræðingi. 

Pétur segir í ritgerð sinni að Aðalheiður hafi trúað syni sínum, Jónasi Haralz bankastjóra, fyrir því að það hafi verið Jóhann en ekki Haraldur sem var rómantíska ástin í lífi sínu.

Jóhann kom aftur suður til Reykjavíkur 1917 og settist á skólabekk í Menntaskólanum. Hann varð stúdent 1920. Á skólaárunum var hann vinsæll upplesari ljóða og sagna á skemmtunum í bænum eins og meðfylgjandi úrklippa úr einu bæjarblaðanna ber vitni um, en þar segir frá því er hann las upp í fyrsta sinn. Ég minnist þess frá æskuárum að hafa heyrt systur móðurafa míns, Margréti Breiðfjörð, segja frá því að hún hafi á þessum árum sótt samkomu þar sem Jóhann las upp ljóð. Allur bærinn hafi hrifist af framsögn hans.

En aldrei varð Jóhann milljóner, dó úr berklum í Þýskalandi langt fyrir aldur fram 1932.





Previous
Previous

Íslenskur bóndi meðal jafningja í konungsgarði

Next
Next

Minnið er brigðult