Minnið er brigðult

Friðrik Friðriksson um aldamótin 1900

Í byrjun janúar 1899 stofnaði Friðrik Friðriksson Kristilegt unglingafélag í Reykjavík, seinna nefnt KFUM. Um fimmtíu strákar gengu í félagið. Nokkrum vikum seinna, um páskana þetta ár, bauð Friðrik drengjunum mikla tilbreytingu, skemmtiferð til Hafnarfjarðar. Fæstir þeirra höfðu þangað komið, bílaöld var ekki runnin upp og vagnar og hestar aðeins í eigu hinna efnameiri kaupstaðarbúa og því var gengið alla leiðina fram og til baka. Til að skapa stemningu í göngunni marseruðu drengirnir, um 35 að tölu, eins og herflokkur væri á ferð og sungu hástöfum kristilega baráttusöngva. Ekki er að efa að þetta hefur vakið mikla athygli annarra vegfarenda.

Í Hafnarfirði fengu drengirnir að leika sér um stund en síðan var þeim boðið upp á rausnarlegar veitingar úr brauðgerðahúsi bæjarins, Havnefjords-bageri eða Proppébakarí eins og það var jafnan nefnt eftir bakaranum Claus Proppé.

Friðrik kveðst í endurminningum sínum hafa heimsótt bakarameistara Proppé og hafi frú hans beðið sig að ná saman eins mörgum af drengjunum og hann gæti að drekka þar heima. ‘Var veitt af mestu risnu eins og þeim ágætu hjónum var lagið,’ segir Friðrik.

Sigurbjörn Þorkelsson, síðar kaupmaður í versluninni Vísi, var á meðal drengjanna, þá 14 ára gamall. Hann segir frá skemmtiförinni í endurminningum sínum (3. bindi), birtir mynd af Proppé bakarameistara og skrifar:

Áður en við lögðum af stað í þessa innanbæjar skemmtiför, hafði Claus Eggert Proppé bakarameistari hvíslað að séra Friðrik, að hann skyldi, eftir að við værum búnir að sjá okkur um í bænum, koma með sem flesta drengjanna heim til hans, svo að við mættum þiggja einhverjar góðgerðir af honum.

Sigurbjörn Þorkelsson kaupmaður í Vísi var lærisveinn og vinur séra Friðriks Friðrikssonar. Myndin er tekin á efri árum hans.

Einn galli er á þessum frásögnum báðum, hinni fyrri frá árinu 1932 og hinni síðari frá 1969. Claus Eggert Dietrich Proppé bakari lést um miðjan september 1898, um sjö mánuðum fyrir skemtiferð Kristilegs unglingafélags til Hafnarfjarðar og um fjórum mánuðum áður en félagið var stofnað.

Minnið er brigðult og bera flestar sjálfsævisögur manna þess ljósan vott.

Hitt er ekki vafamál að drengirnir hans Friðriks hafa notið veitinga úr Proppébakarí. Ekkjan, Helga Jónsdóttir, starfrækti það í nokkur ár af miklum myndarskap. Það hefur verið hún sem sýndi drengjunum rausnarskap um páskana 1899.

Helga Jónsdótir Proppé bakarameistarafrú í Hafnarfirði um aldamótin 1900.

Previous
Previous

„Þjer gætuð orðið milljóner!“

Next
Next

Glötuð brjóstmynd af Jóni forseta