Glötuð brjóstmynd af Jóni forseta
Þessa lítt þekktu brjóstmynd af Jóni okkar Sigurðssyni forseta (1811-1879) gerði Júlíus Andreas Hansen Schou (oft einnig ritað Schau) steinsmiður (1855-1938). Eftir hann liggja ótal verk í Reykjavík, hann var einn af þeim sem byggðu Alþingishúsið 1881 og síðan hvert steinhúsið á fætur öðru í bænum og ófáir eru þeir legsteinarnir í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu (Hólavallagarði sem svo heitir nú) sem hann meitlaði. Steinbryggjan gamla í miðbænum er líka verk hans. Tvo konungssteinanna við Geysi, frá 1907 og 1921, gerði hann. Einnig minnismerkið um Hallgrím Pétursson við Dómkirkjuna. Og ótal margt fleira. Í honum var sterk listræn taug, en þó var hann alveg ómenntaður á því sviði.
Júlíus Schou flutti heim til Danmerkur sumarið 1919 eftir um 40 ára dvöl hér. Hann virðist hafa haft talsverðan metnað til að verða viðurkenndur listamaður og segja má að það hafi honum loks tekist árið 1938, þá 82 ára gömlum, þegar hin vandfýsna stjórn vorsýningarinnar frægu í Charlottenborg í Kaupmannahöfn tók verk eftir hann á sýninguna það ár. Kaupmannahafnarblaðið Berlingske Tidende birti viðtal við hann af þessu tilefni og kom fram að aldrei áður hefði svo aldraður maður sem hann byrjað að sýna myndir sínar.
En það er brjóstmyndin af Jóni forseta – hún er kannski ekki alveg nógu vel lukkuð – sem er tilefni þessara skrifa. Hvað varð um hana? Ljósmyndin af henni sem hér er sýnd er varðveitt í Þjóðminjasafninu, tekin einhvern tíma á árunum 1880 til 1905 segir á vefnum Sarpi, en hvar er sjálft verkið?
Í Tímariti iðnaðarmanna (12. árg., 2. tbl., apríl 1939, 29) er þess getið að hinn „nafnkunni fiskkaupmaður Pike Ward“ (1856-1937) hafi keypt brjóstmyndina og tekið með sér til Englands. Ward þessi dvaldist hér öðru hverju um langt árabil undir lok 19. aldar og á fyrri hluta hinnar 20. og safnaði eins og margir vita íslenskum forngripum. Hann arfleiddi Royal Albert Memorial Museum í Exeter að þeim þegar hann féll frá. Safnið gaf þessa gripi til Íslands fyrir forgöngu séra Jóns Auðuns árið 1950. Var sérstök deild í Þjóðminjasafninu lengi kennd við þessa gjöf, nefnd Vordssafn.
Ég kannaði þetta fyrir nokkrum misserum og fékk þau svör frá fyrrum samstarfsmanni á Þjóðminjasafninu að brjóstmyndin hefði ekki borist þangað með öðrum munum úr safni Pike Ward. Eftirgrennslan í Exeter hefði engan árangur borið. Líklega þurfum við því að sætta okkur við að þessi brjóstmynd af Jóni forseta sé glötuð fyrir fullt og allt.