Munnleg heimild sker úr um
Ritaðar heimildir eru ær og kýr sagnfræðinnar. En ekki svara þær öllum spurningum. Án munnlegra heimilda er oft æði erfitt að fá botn í mál eða átta sig á samhengi hlutanna. Hér er smá saga úr gömlu frímerkjastússi mínu um það hvernig munnleg heimild varpaði ljósi á mál sem ég var að velta fyrir mér og fann ekki skýringu á:
Í tilefni af hálfrar aldar afmæli lýðveldisins 1994 voru gefin út frímerki með andlitsmyndum fimm einstaklinga. Þetta voru forsetarnir Sveinn Björnsson, Ásgeir Ásgeirsson, Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir. Á fimmta frímerkinu var mynd af Gísla Sveinssyni fyrrverandi alþingismanni (1880-1959).
Óhætt er að segja að árið 1994 hafi Gísli verið svo til óþekktur maður. Hvers vegna var honum lyft á stall á þessum tímamótum? Gísli var vissulega þekktari fyrr á tíð, enda sat hann á Alþingi með hléum frá 1916 til 1947, síðustu árin fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og var einn frambjóðenda í forsetakosningunum 1952. Það féll í hlut hans sem forseta sameinaðs Alþingis að tilkynna stofnun lýðveldis á þingfundi á Þingvöllum 17. júní 1944.
Gögn póststjórnarinnar á Þjóðskjalasafninu sýna að þeir sem undirbjuggu frímerkjaútgáfuna 1994 hafa haft áhyggjur af því að fólk þekkti hvorki nafn Gísla né andlit. Þar liggja margar og mismunandi tillögur að skýringartexta til að prenta á frímerkið. Niðurstaðan varð lengsti texti á íslensku frímerki fyrr og síðar. Til hliðar við andlitsteikningu af honum og hátíðarmerki lýðveldisins 1944 standa þessi orð: 'Gísli Sveinsson lýsir yfir gildistöku stjórnarskrár lýðveldisins Íslands 17. júní 1944.'
Fyrirmynd teikningarinnar er þó ekki ljósmynd frá athöfninni á Þingvöllum, þannig að útgefandinn hefur tekið sér skáldaleyfi til að Gisli liti betur út og frímerkið yrði aðlaðandi. Slíkt er reyndar algeng iðja við frímerkjaútgáfu hér og erlendis.
Nokkur aðdragandi var að því að Gísli hafnaði á afmælisfrímerkinu. Sumarið 1993 barst frímerkjaútgáfunefnd póstmálastjórnarinnar bréfi frá Páli Pálssyni þar sem stungið var upp á því að mynd af Gísla yrði á frímerki í tilefni af lýðveldisafmælinu. Erindið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar 28. júní og hafnað samhljóða. Sérfræðingarnir töldu greinilega að Gísli ætti ekki sérstakt erindi á frímerki þrátt fyrir hlutverk hans 17. júní 1944. En á fundi nefndarinnar átta mánuðum seinna, 2. febrúar 1994, voru hins vegar kynntar nokkrar tillögur um útlit frímerkis með mynd Gísla sem koma skyldi út í maí eða júni það ár.
Hvað hafði gerst í millitíðinni? Ég hafði ákveðnar grunsemdir um það, en um málið fundust engar skriflegar heimildir. Liðin voru tuttugu ár frá þessu og allt starfsfólk póststjórnarinnar á þessum tíma sem vitað gat um þetta horfið af vettvangi. Nú kom sér vel að fyrrverandi póst- og símamálastjóri, Ólafur Tómasson, er enn ern og minnugur þótt kominn sé á háan aldur. Ég hafði samband við hann og spurði hann um málið. Hann staðfesti grun minn. Halldór Blöndal, samgönguráðherra, hafði haft samband við hann og óskað eftir því að Gísli yrði settur á frímerki í tilefni lýðveldisafmælisins. Var orðið við því þrátt fyrir fyrri synjun enda ráðherrann yfirmaður stofnunarinnar.
Engar opinberar umræður urðu um val Gísla Sveinssonar á frímerkið á lýðveldisafmælinu. Menn vissu svo sem ekki hvernig það hafði borið að. En enginn spurði heldur neins. Velta má þó fyrir sér hvort eðlilegra hefði verið að minnast einhvers annars stjórnmálaforingja af þessu tilefni, t.d. forsætisráðherrans sem var við völd þegar lýðveldið var stofnað, Björns Þórðarsonar? Má segja að það hefði að vissu leyti verið í samræmi við þá ákvörðun sem ríkisstjórin tók árið 1968, þegar Jón Magnússon forsætisráðherra (annar nær óþekktur maður í nútimanum) var látinn prýða frímerki í tilefni af hálfrar aldar afmæli fullveldisins. Á móti vegur þó að Björn Þórðarson var lengst af í hópi svokallaðra lögskilnaðarmanna, sem vildu fresta lýðveldisstofnun fram yfir stríðslok. Kannski var hann því ekki jafn heppilegt andlit afmælisins og Gísli sem var eindregið hlynntur því að hraða lýðveldisstofnuninni.